Fótbolti

Mancini fordæmir vinnubrögð Inter

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roberto Mancini, fyrrum stjóri Inter.
Roberto Mancini, fyrrum stjóri Inter. Nordic Photos / AFP
Roberto Mancini hefur leitað leitað álits lögfræðings til að skoða hvort að uppsögn hans hjá Inter Milan hafi verið ólögmæt.

Mancini sagði eftir að Inter tapaði fyrir Liverpool í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í mars síðastliðnum að hann ætlaði að hætta hjá félaginu í lok leiktíðarinnar. Hann hætti svo við degi síðar.

Þegar Mancini var látinn fara í vikunni var ástæðan sögð vera þau ummæli sem hann lét falla eftir leikinn gegn Liverpool.

Lögfræðingurinn Stefano Gagliardi sagði að það væri of seint fyrir Inter að nota þá afsökun.

„Samkvæmt samningum við knattspyrnustjóra verður að bregðast við meintum brotum þeirra innan tíu daga," sagði Gagliardi.

Í tilkynningu Inter var einnig vísað til atburða sem komu nýlega fram í fréttum. Gagliardi sagði að þetta væri vísun í mál sem komst í fjölmiðla fyrir stuttu. Um væri að ræða hleranir á símtölum í tengslum við fíkniefnarannsókn lögreglunnar. Aðilar í símtalinu munu vera kunnugir Mancini og sumum leikmanna Inter.

Mancini gagnrýndi félagið í yfirlýsingu fyrir að taka þetta mál með í uppsögn hans.

„Ég hef falið lögfræðingi mínum það starf að vernda ímynd mínar. Ég fordæmi einnig hegðum míns fyrrum vinnuveitanda að hafa reynt að færa sér rangar og illa fengnar fréttir sér í nyt."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×