Enski boltinn

Mourinho: Ranieri er gamall og hefur ekki unnið neitt

Mourinho er farinn að láta til sín taka á Ítalíu eins og búast mátti við
Mourinho er farinn að láta til sín taka á Ítalíu eins og búast mátti við NordcPhotos/GettyImages

Jose Mourinho er ekki lengi að stela sviðsljósinu hvar sem hann kemur og í dag baunaði Inter-þjálfarinn skotum á Claudio Ranieri, þjálfara Juventus.

Svo virðist sem litlir kærleikar séu milli þessara tveggja fyrrum knattspyrnustjóra Chelsea á Englandi, því Ranieri lýsti því yfir í viðtali í gær að ólíkt Mourinho - þyrfti hann sjálfur ekki að vinna bikara til að sanna ágæti sitt fyrir sjálfum sér.

Mourinho var ekki lengi að svara fyrir sig í dag og sagðist ekki vilja taka þátt í orðastríði við Ranieri - en hóf svo skothríðina strax á eftir.

"Ég er á Ítalíu til að vinna en ekki til að taka þátt í deilum. Ég vil einbeita mér að því sem ég er að gera með Inter. Ætli það sé ekki rétt sem Ranieri sagði um mig. Ég geri miklar kröfur á sjálfan mig og ég þarf að vinna sigra til að sanna mig fyrir sjálfum mér. Þetta er ástæðan fyrir því að ég hef unnið svona marga bikara á ferlinum," sagði Mourinho og hraunaði yfir Ranieri.

"Ranieri hefur hinsvegar unnið keppnina um meistara meistaranna einu sinni og einn lítinn bikar. Hann hefur hugarfar þess sem er sama hvort hann vinnur eða ekki. Hann er of gamall til að breyta hugarfari sínu, enda er hann að verða sjötugur. Hann er gamall og hefur ekki unnið neitt," sagði Mourinho í samtali við sjónvarpsstöð Inter.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×