Enski boltinn

Arsenal skoraði ó­vænt fimm gegn Maríu og fé­lögum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Brighton vissu ekki hvað var upp og var niður í kvöld.
Leikmenn Brighton vissu ekki hvað var upp og var niður í kvöld. Crystal Pix/Getty Images

María Þórisdóttir og stöllur í Brighton & Hove Albion áttu ekki möguleika gegn Arsenal í efstu deild kvenna í knattspyrnu á Englandi. Skytturnar í Arsenal unnu öruggan 5-0 sigur. Í hinum leik kvöldsins vann Manchester City 4-0 sigur á Tottenham Hotpsur.

Segja má að Arsenal hafi gert út um leikinn á fyrstu 25 mínútum kvöldsins. Beth Mead kom Skyttunum yfir, Caitlin Foord tvöfaldaði forystuna og Frida Leonhardsen-Maanum tryggði sigurinn skömmu síðar.

María fór meidd af velli snemma í síðari hálfleik og var því ekki inn á vellinum þegar Lina Hurtig skoraði fjórða mark Arsenal. Það var svo Alessia Russo sem skoraði fimmta og síðasta markið úr vítaspyrnu á fimmtu mínútu uppbótartímans.

Sigurinn kemur á óvart þar sem Brighton er í 3. sæti deildarinnar með 13 stig en Arsenal sæti neðar með 12 stig.

Í Manchester skoraði Khadija Shaw þrennu í þægilegum 4-0 sigri City á Tottenham. Jill Roord skoraði fjórða markið. Þá var Lauren Hemp með stoðsendingaþrennu.

Eftir leiki kvöldsins er Man City komið á toppinn með 19 stig eftir 7 leiki. Englandsmeistarar Chelsea eru fjórum stigum þar á eftir með tvo leiki til góða. Tottenham er hins vegar í 7. sæti með sjö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×