Fótbolti

Emil: Skal skrifa undir á morgun ef þetta er satt

Elvar Geir Magnússon skrifar
Emil Hallfreðsson í leik með Reggina.
Emil Hallfreðsson í leik með Reggina.

Íslenski landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson er orðaður við Lazio í ítölskum fjölmiðlum. Emil og félagar í Reggina héldu sæti sínu í ítölsku A-deildinni á síðasta tímabili.

„Þú ert eiginlega bara fyrsti maðurinn sem segir mér þetta. En það er gaman að vera orðaður við lið eins og Lazio og ef þetta er satt þá skal ég skrifa undir á morgun," sagði Emil léttur í bragði þegar blaðamaður Vísis náði á hann.

„Annars er ég bara í rólegheitum og er ekkert að æsa mig yfir þessu. Ég er í fríi og bíð bara rólegur eftir því hvað gerist. Það eru umboðsmenn að skoða þessi mál fyrir mig," sagði Emil.

Hann útilokar ekki að vera áfram hjá Reggina. „Það gæti alveg verið að ég yrði áfram hjá Reggina. Ég útiloka það ekki. Annars var ég að skoða heimasíðuna þeirra og ef ég var að skilja ítölskuna rétt þá verður þjálfarinn áfram. Eftir að hann tók við fékk ég fá tækifæri svo það minnkar líkurnar á því að ég verði áfram ef hann verður," sagði Emil.

„Ég er ánægður með mína frammistöðu með Reggina og tel mig hafa átt fullt af góðum leikjum. Það er því mjög gaman að vera orðaður við lið eins og Lazio," sagði Emil en talið er að Lazio sé að undirbúa tilboð í hann. Einnig hefur Emil verið orðaður við Napoli.

„Mér líður vel á Ítalíu og vil gjarnan vera áfram hér. Ég er að læra ítölskuna betur og komast í menninguna," sagði Emil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×