Körfubolti

Snæfellingar unnu Reykjanes Cup á sannfærandi hátt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson, fyrirliði Snæfells, með Reykjanes Cup bikarinn í mótslok.
Hlynur Bæringsson, fyrirliði Snæfells, með Reykjanes Cup bikarinn í mótslok. Mynd/ÓskarÓ

Snæfell tryggði sér í gær sigur á fyrsta Reykjanes Cup mótinu í körfubolta sem verður hér eftir árlegur viðburður í tengslum við Ljósanótt í Reykjanesbæ. Snæfell vann 18 stiga sigur á Njarðvík, 99-81, í úrslitaleiknum.

Snæfell náði frumkvæðinu í öðrum leikhluta og hélt góðri forustu út leikinn þrátt fyrir að missa Sigurð Þorvaldsson Jón Ólaf Jónsson og Pálma Frey Sigurgeirsson alla útaf með fimm villur.

Jón Ólafur Jónsson átti enn einn stórleikinn með Snæfelli á þessu móti og skoraði 31 stig á aðeins 25 mínútum. Hlynur Bæringsson sýndi styrk sinn með 18 fráköstum, 12 stigum, 7 stoðsendingum og 4 varin skot. Þeir Emil Þór Jóhannsson (20 stig) og Sigurður Þorvaldsson (15 stig og 10 fráköst) voru einnig öflugir.

Hjá Njarðvík voru fáir að finna sig en Magnús Þór Gunnarsson var stigahæstur með 16 stig og Guðmundur Jónsson skoraði 14 stig.

Grindavík varð í 3. sæti eftir 87-63 sigur á Keflavík þar sem Ómar Sævarsson (18 stig, 8 fráköst, 4 varin), Guðlaugur Eyjólfsson (17 stig, hitti úr 5 af 5 3ja stiga skotum) og Páll Axel Vilbergsson (17 stig, 8 fráköst) voru atkvæðamestir hjá þeim. Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði 12 stig fyrir Keflavík.

Stjarnan varð síðan í 5. sæti eftir 106-71 sigur á Breiðablik þar sem Birgir Björn Pétursson var með 17 stig og 10 fráköst í liði Stjörnunnar. Justin Shouse var þó stigahæstur með 22 stig og 7 stoðsendingar. Þorsteinn Gunnlaugsson var með 22 stig og 15 fráköst fyrir Blika.

Lokaröðin á fyrsta Reykjanes Cup mótinu

1. Snæfell

2. Njarðvík

3. Grindavík

4. Keflavík

5. Stjarnan

6. Breiðablik






Fleiri fréttir

Sjá meira


×