Körfubolti

Teitur: Við vissum að þetta yrði brjálaður nóvember

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar.
Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar. Mynd/Daníel

Teitur Örlygsson var ánægður með sína leikmenn þrátt fyrir tíu stiga tap í Grindavík í kvöld. Stjörnuliðið sýndi mikla seiglu í leiknum og hélt sér inn í leiknum allan leikinn en varð að sætta sig við tap í lokin.

„Þetta var skrefið í rétta áttina hjá okkur og ég er virkilega ánægður með þennan leik því við erum bara 50-60 prósent. Það eru 6 af 7 mönnum hjá okkur meiddir og þeir eru að spila á 50 prósent hraða. Það er samt engin afsökun því þeir spila leikina og ég er virkilega stoltur af þeim," sagði Teitur í leikslok.

Stjarnan er nú í 4. sæti deildarinnar og féll niður um tvö sæti eftir leiki kvöldsins:

„Við erum hæstánægðir með stöðuna í deildinni eins og hún er í dag að við séum með fimm sigra og tvö töp. Við ætlum að reyna að ná fleiri sigrum fyrir jól. Menn eru á batavegi og þeir verða bara betri," segir Teitur.

Teitur segist vera í nánu sambandi við sjúkraþjálfarann þessa daganna.

„Menn eru ekkert að æfa en við förum í gegnum þetta. Ég er hrikalega stoltur af strákunum eins og þeir spiluðu í dag og þá sérstaklega af Fannari. Ég veit ekki hvað hann tók mörg fráköst á annarri löppinni sem er bara magnað," sagði Teitur en Fannar tók 15 fráköst í leiknum.

„Við eigum Njarðvík í næsta leik og við vissum að þetta yrði brjálaður nóvember hjá okkur og þess vegna var mikilvægt að taka þessa fyrstu leiki í mótinu. Það hjálpaði okkur," sagði Teitur.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×