Körfubolti

Stjörnumenn hafa aldrei unnið Keflavík - geta breytt því í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Einarsson var sjóðheitur í fyrri leiknum gegn Stjörnunni.
Gunnar Einarsson var sjóðheitur í fyrri leiknum gegn Stjörnunni. Mynd/Vilhelm

Stjarnan hefur unnið alla sex heimaleiki sína undir stjórn Teits Örlygssonar en Stjörnumenn þurfa að endurskrifa sögu félagsins í úrvalsdeild ætli þeir að bæta við þá sigurgöngu. Stjarnan tekur á móti Keflavík í Iceland Express deild karla í körfubolta í kvöld og hefst leikurinn klukkan 19.15 í Íþróttahúsinu í Ásgarði.

Stjarnan hefur aldrei unnið Keflavík í úrvalsdeild karla. Liðin hafa mæst fimm sinnum í úrvalsdeild karla og Keflavík hefur unnið alla leikina með 12 til 55 stiga mun. Að meðaltali hefur Keflavík unnið Garðbæinga með 27,8 stiga mun í þessum fimm leikjum.

Keflavík vann fyrri leik liðanna i vetur með 34 stiga mun í Keflavík, 93-59, en það er stærsta tap Stjörnunnar á tímabilinu. Stjörnumenn réðu þá ekkert við Gunnar Einarsson sem skoraði 33 stig í leiknum þar af 21 stig úr þriggja stiga skotum.

Sigurður Gunnar Þorsteinsson, miðherji Keflavíkurliðsins, var einnig illviðráðanlegur undir körfunum í þessum leik en hann var með 22 stig, 19 fráköst og 5 varin skot í þessum stórsigri liðsins.

Stjörnumaðurinn Justin Shouse vill væntanlega bæta fyrir sína frammistöðu í leiknum í nóvember þar sem hann klikkaði á 7 af 9 skotum og var með 4 stig, 1 stoðsendingu og 7 tapaða bolta.

Stjarnan á enn eftir að vinna sinn fyrsta leik eftir að bikarmeistaratitillinn kom í hús en liðið lá með 29 stigum gegn KR í síðasta leik. Keflvíkingar hafa verið á góðri siglingu á útivöllum þar sem liðið hefur unnið fimm leiki í röð. Keflavík hefur unnið alla þess fimm útileiki með 14 stigum eða meira.

Leikir Stjörnunnar og Keflavíkur í úrvalsdeild karla:

14. október 2001 Stjarnan-Keflavík 83-95 (Keflavík +12)

18. janúar 2002 Keflavík-Stjarnan 120-65 (Keflavík +55)

15. nóvember 2007 Stjarnan-Keflavík 101-80 (Keflavík +21)

17. febrúar 2008 Keflavík-Stjarnan 95-78 (Keflavík +17)

17. nóvember 2008 Keflavík-Stjarnan 93-59 (Keflavík +34)

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×