Körfubolti

Keflvíkingar búnir að reka kanann sinn í körfunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rahshon Clark hvarf í leiknum á móti Njarðvík.
Rahshon Clark hvarf í leiknum á móti Njarðvík. Mynd/Anton

Keflvíkingar sögðu í gær upp samningi sínum við Bandaríkjamanninn Rahshon Clark og mun lið þeirra spila án Bandaríkjamanns í næsta leik sem verður á móti KR í Toyota-höllinni á fimmtudaginn. Rahshon Clark var með 18,9 stig og 10,8 fráköst að meðaltali í leik.

Rahshon Clark skoraði aðeins 6 stig á 31 mínútu þegar Keflavík steinlá fyrir Njarðvík í Ljónagryfjunni á mánudagskvöldið þar af var hann aðeins með eitt stig fyrstu 34 mínútur leiksins eða á sama tíma og Njarðvíkurliðið náði 24 stiga forskoti (70-46) í leiknum. Keflavík vann alla leikina þar sem hann skoraði 12 stig eða meira en hann var aðeins með 11 stig í tapi á móti Stjörnunni.

"Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur ákveðið að segja upp samningi sínum við Rahshon Clark, en hann hefur ekki þótt standa undir væntingum það sem af er tímabils. Frá því að Rahshon hóf æfingar með Keflavík, var ljóst að það var margt sem vantaði upp á hjá honum miðað við þann styrk sem Keflavíkur-liðinu vantaði frá erlendum leikmanni.

Honum var þó gefin lengri aðlögunartími til þess að bæta leik sinn, en þær betrumbætur hafa aldrei komið. Þar af leiðandi telur stjórn að skynsamlegast sé að segja upp samningi sínum við Rahshon og óskum við honum velfarnaðar í lífinu," segir í yfirlýsingu á heimasíðu Keflavíkur.

Þar segir einnig af því að liðið mun spila án Kana í næstu leikjum. "Stjórnin hefur ekki tekið ákvörðun um nýjan kana sem mun fylla upp í skarð Rahshon og verður liðið því skipað alíslenskum leikmönnum, enda höfum við úr mörgum góðum leikmönnum að velja," segir í frétt um málið á heimasíðu Keflavíkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×