Körfubolti

Snæfellingar bikarmeistarar í annað skiptið á þremur árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sean Burton skoraði 36 stig í leiknum,
Sean Burton skoraði 36 stig í leiknum, Mynd/Valli
Snæfell tryggði sér sigur í Subwaybikar karla með ellefu stiga sigri á Grindavík, 92-81, í bikarúrslitaleiknum í Laugardalshöllinni í dag. Snæfell var með frumkvæðið allan tímann eftir að liðið skoraði þrettán stig í röð í öðrum leikhluta.

Snæfell vann Fjölni í bikarúrslitaleiknum fyrir tveimur árum og varð nú fyrsta liðið sem nær að vinna Grindavík í bikarúrslitum. Grindavík hafði unnið alla fjóra bikarúrslitaleiki sína fyrir leikinn í kvöld.

Snæfell var 44-41 yfir í hálfleik en liðið breytti stöðunni úr 23-30 fyrir Grindavík í 36-30 með því að skora þrettán stig í röð rúmum tveggja mínútna kafla.

Snæfell byrjaði seinni hálfleik af krafti með Sean Burton í fararbroddi en bandaríski leikstjórnandi liðsins skoraði 16 stig í þriðja leikhluta og Snæfell var með 69-65 forustu fyrir lokaleikhlutann.

Snæfell var síðan sterkari í fjórða leikhluta og landaði nokkuð öruggum sigri.

Sean Burton skoraði 36 stig fyrir Snæfell, Sigurður Þorvaldsson var með 14 stig, Jón Ólafur Jónsson gerði 12 stig og fyrirliðinn Hlynur Bæringsson var með 10 stig og 19 fráköst.

Brenton Birmingham skoraði 17 stig fyrir Grindavík, Þorleifur Ólafsson og Darrel Flake voru báðir með 16 stig og Arnar Freyr Jónsson bætti við 15 sigum og 11 stoðsendingum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×