Körfubolti

Hörður Axel: Allt gekk upp

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hörður Axel var frábær gegn Stjörnunni í kvöld og skoraði alls 22 stig.
Hörður Axel var frábær gegn Stjörnunni í kvöld og skoraði alls 22 stig. Mynd/Stefán
Hörður Axel Vilhjálmsson, leikmaður Keflavíkur, sagði allt hafa gengið upp hjá sínum mönnum gegn Stjörnunni í kvöld.

Keflavík vann í kvöld stórsigur á Stjörnunni, 118-83, og komst þar með upp fyrir liðið í Iceland Express-deild karla. Liðin eru með jafn mörg stig en Keflavík með betri árangur í innbyrðis viðureignum þökk sé sigrinum í kvöld.

„Það gekk allt fullkomnlega upp hjá okkur eins og úrslit leiksins bera með sér. Þeir áttu bara ekki séns," sagði Hörður Axel við Vísi eftir leikinn.

Hann var ánægður með frammistöðu Bandaríkjamannsins Draelon Burns sem gekk nýverið til liðs við Keflavík.

„Þetta er magnaður gaur, bæði sem innan vallar sem utan. Hann er strax byrjaður að láta mann finna fyrir því á æfingum og hann gerir mig og aðra leikmenn liðsins betri."

„Með honum fáum við meiri dýpt í liðið. Nú þurfa hin liðin að passa upp á hann líka og þá verður allt beittara hjá okkur."

„En það var frábært að vinna þennan leik í kvöld og komast upp fyrir Stjörnuna. Það verður mjög spennandi að fylgjast með toppbaráttunni áfram."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×