Körfubolti

Brenton spurningamerki fyrir leikinn á móti KR í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brenton Birmingham hefur glímt við meiðsli stærsta hluta þessa tímabils.
Brenton Birmingham hefur glímt við meiðsli stærsta hluta þessa tímabils. Mynd/Vilhelm

Brenton Birmingham er tæpur fyrir stórleik Grindavíkur og KR í Iceland Express deild karla í kvöld en leikurinn hefst klukkan 19.15 í Röstinni í Grindavík. Samkvæmt frétt á heimasíðu Grindvíkinga þá er Brenton að glíma við meiðsli á læri eftir að hafa fengið högg framan á lærið í síðasta leik á móti Njarðvík.

KR-ingar eru á toppnum í Iceland Express deildinni og mæta með landsliðsleikstjórnandann Pavel Ermolinski til Grindavíkur í kvöld.

„Brenton er spurningarmerki en hann fékk högg á lærið í frábærum sigri okkar manna á móti Njarðvík um daginn. Hann er búinn að jafna sig af gömlu meiðslunum sem voru að mestu, aftan í lærinu en er búinn að vera aumur í lærinu framanverðu eftir höggið sem hann fékk. Vonandi mun Brenton spila með en heill er hann ennþá einn af betri leikmönnum deildarinnar," segir á heimasíðu Grindavíkur.

Brenton hefur skorað 12,8 stig, tekið 4,5 fráköst, gefið 3,7 stoðsendingar og stolið 2,8 boltum að meðaltali í þeim tólf leikjum sem hann hefur spilað með Grindavík í deildinni á tímabilinu.

Brenton var bæði stigahæstur (21) og stoðsendingahæstur (7) þegar Grindavík mætti KR fyrr á tímabilinu en KR vann þann leik með tveimur stigum, 84-82, eftir mikla spennu.

Grindvíkingar gleðjast þó yfir því að Þorleifur Ólafsson verður með í kvöld en hann var með 20 stig og 8 fráköst í fyrri leik Grindavíkur og KR í vetur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×