Körfubolti

Teitur: Menn trúa ekki hvað þeir geta spilað vel

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Teitur átti oft erfitt með sig á hliðarlínunni.
Teitur átti oft erfitt með sig á hliðarlínunni. Mynd/Valli

Sá mikli keppnismaður, Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum svekktur eftir tapið gegn Njarðvík í kvöld en Teitur er sanngjarn maður og hann viðurkenndi að Njarðvík hefði unnið verðskuldað.

„Þetta var algjörlega verðskuldað hjá þeim og ég sagði það við Sigga Ingimundar eftir leikinn. Þeir spiluðu frábærlega í síðari hálfleiknum. Við áttum ekki möguleika. Þegar Friðrik Stefánsson er farinn að setja niður þriggja stiga skot er nú fokið í flest skjól," sagði Teitur og glotti út í annað.

„Þeir hittu úr hverju einasta skoti á tímabili og þegar við áttum smá möguleika var brotið á Justin, ekkert dæmt og þeir fara fram og skora þriggja stiga körfu. Við réðum ekki við þá fimm stiga sveiflu. Ég ætla samt ekki að gagnrýna dómgæsluna enda sá dómarinn ekki atvikið nógu vel, hann var blindaður."

Stjörnumenn mættu ótrúlega værukærir til síðari hálfleiksins eftir að hafa spilað mjög vel í þeim fyrri.

„Mér hefur fundist þetta vera svona hjá okkur í þessari rimmu. Það kemur eitthvað upp eins og menn trúi því ekki hvað þeir geta spilað vel. Ég er ógeðslega fúll en það þýðir ekkert. Við erum nokkurn veginn á pari við það sem við ætluðum okkur í vetur," sagði Teitur sem á eitt ár eftir af samningi sínum við Stjörnuna. Hann gerir ráð fyrir að vera áfram í Garðabænum.

„Við ætlum okkur að gera betur á næsta ári og ég vona að ég verði hér áfram. Mig langar að gera smá breytingar fyrir næsta tímabil og ég tel mig vita hvað okkur vantar. Ég vil helst samt ekki segja það núna. Ég tel mig samt vita hvað okkur vantar til þess að taka næsta skref."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×