Körfubolti

Hörður Axel: Þarf gott tilboð til að fara frá Keflavík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Axel.
Hörður Axel. Fréttablaðið/Daníel
Leikstjórnandinn Hörður Axel Vilhjálmsson ætlar ekki að hoppa á hvaða tilboð sem er þótt að hann stefni á það að komast aftur út í atvinnumennsku. Hörður Axel spilaði frábærlega með Keflavíkurliðinu á síðasta tímabili ekki síst í úrslitakeppninni þar sem Keflavík fór alla leið í oddaleik um titilinn. „Ég ætla ekki bara að fara út til þess að fara út. Ég þarf að fá eitthvað sem vit er í því annars verð ég áfram í Keflavík. Ég verð að fá eitthvað gott til að vilja fara frá Keflavík því maður hefur það mjög gott hérna,“ segir Hörður sem er búinn að skipta um umboðsmann. „Maður er í þessu til þess að komast eitthvað lengra og bæta sig. Maður stefnir því alltaf eitthvað hærra. Hinn umboðsmaðurinn var ekki að gera neitt gott fyrir mig þannig að ég skipti bara,“ segir Hörður sem tók sér aðeins viku sumarfrí. „Ég er búinn að æfa tvisvar á dag í allan vetur og allt sumar. Ég tók viku sumarfrí eftir úrslitakeppnina. Ég er búinn að læra ansi mikið af öllu draslinu sem ég hef farið í gegnum. Ég held að það hafi bara styrkt mig og ýtt við mér að leggja ennþá meira á mig,“ segir Hörður Axel. Hann fagnar komu Arnars Freys Jónssonar til liðsins en þeir spila sömu stöðu. „Arnar er magnaður leikmaður og á eftir að hjálpa okkur mikið. Hann á líka eftir að hjálpa mér mikið bæði í æfingum og í leikjum. Nú hefur maður einhvern almennilegan til að pressa allan völl á æfingum,“ sagði Hörður í léttum tón



Fleiri fréttir

Sjá meira


×