Körfubolti

Emil Þór: Ég var svo reiður eftir þetta högg í síðasta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emil Þór Jóhannsson fagnar með stuðningsmönnum Snæfells í kvöld.
Emil Þór Jóhannsson fagnar með stuðningsmönnum Snæfells í kvöld. Mynd/Daníel
Emil Þór Jóhannsson átti frábæran leik þegar Snæfell tryggði sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil með 36 stiga sigri í Keflavík í kvöld. Emil var með 17 stig í leiknum og hitti úr 5 af 6 skotum sínum

„Þetta er hreinn unaður og ég á bara ekki orð yfir þetta. Þetta var þvílíkur draumaleikur," sagði Emil Þór Jóhannsson sem skoraði 10 stig á fyrstu fimm mínútum leiksins þegar Snæfell komst í 27-7.

„Ég var kominn hingað til þess að bæta upp fyrir það sem ég missti af í síðasta leik," sagði Emil en hann spilaði ekkert meira í síðasta leik eftir að hafa fengið slæmt höfuðhögg í upphafi seinni hálfleiks.

„Við byrjuðum bara á brjálaðri vörn og vorum miklu ákveðnari en þeir. Sóknarleikurinn og flæðið var að smella hjá okkur en þetta byrjaði allt í vörninni," sagði Emil.

Emil er ekki búinn að spila marga stóra leiki á ferlinum en það var ekki að sjá mikið stress á honum í kvöld.

„Ég viðurkenni alveg að ég var mjög stressaður. Ég var búinn að hugsa um leikinn í allan dag og var búinn að vera frekar stressaður af því að ég hefði ekkert getað hætt að hugsa um leikinn," sagði Emil.

„Maður verður bara að koma inn í svona leiki og vera brjálaður. Ég var svo reiður eftir þetta högg í síðasta leik að það keyrði mig bara áfram. Það þýðir ekkert annað en að vera sterkur þegar titilinn er undir og keyra á þetta með fullu sjálfstrausti,"sagði Emil.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×