Enski boltinn

Barcelona og Arsenal byrjuð að tala saman um Cesc Fabregas

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas liggur á bæn um að fá fara til Bracelona.
Cesc Fabregas liggur á bæn um að fá fara til Bracelona. Mynd/AFP
Barcelona segir að félagið sé búið að hefja formlegar viðræður við enska liðið Arsenal um kaup á spænska landsliðsmanninum Cesc Fabregas.

Hinn 22 ára gamli Cesc Fabregas er fyrirliði Arsenal og algjör lykilmaður í liðinu en hann hefur opinberlega lýst því yfir að hann vilji fara til Barcelona.

„Við hófum óformlegar viðræður við Arsenal 1. júní og núna höfum við gert formlega fyrirspurn um leikmanninn," sagði talsmaður Barcelona við BBC. Fulltrúar Arsenal neituðu að tjá sig um málið við BBC.

Fabregas er eins og er að undirbúa sig undir HM í Suður-Afríku með spænska landsliðinu en árið 2006 gerði hann átta ára samning við Arsenal eða til ársins 2014. Fabregas kom til Arsenal frá Barcelona fyrir sjö árum en hann hafði þá farið upp í gegnum unglingastarf félagsins.

Arsenal hefur samkvæmt heimildum BBC þegar hafnað 30 milljón punda tilboði frá spænsku meisturunum og það er búist við því að félagið vilji fá tvöfalda þá upphæð ætli það að vera tilbúið að sjá á eftir sínum besta leikmanni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×