Íslenski boltinn

Selfyssingar fóru illa með gamla þjálfara sinn Gumma Ben

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Benediktsson.
Guðmundur Benediktsson.
Selfyssingar hafa sýnt á sér ýmsar hliðar í Lengjubikarnum í ár en í gær voru þær sparihliðarnar sem voru í sviðsljósinu í 3-0 sigri á Íslandsmeisturum Breiðabliks í Kórnum.

Guðmundur Benediktsson, fyrrverandi þjálfari Selfoss og núverandi aðstoðarþjálfari hjá Blikum, stýrði Breiðabliksliðinu í leiknum þar sem Ólafur H. Kristjánsson var upptekinn á þjálfaranámskeiði erlendis. Gömlu lærisveinar Gumma Ben fóru því illa með hann í gær.

Ingi Rafn Ingibergsson skoraði fyrsta mark Selfyssinga á 10. mínútu og Viðar Örn Kjartansson bætti síðan við tveimur mörkum í seinni hálfleik á 62. og 76. mínútu þar af því síðara úr víti. Viðar fékk vítið og um leið rautt spjald á Blikann Elfar Freyr Helgason.

Selfoss tapaði fyrstu tveimur leikjum sínum í Lengjubikarnum, þar af öðrum 8-0 fyrir Þór, en liðið hefur síðan leikið undanfarna fjóra leiki án þess að tapa.

Sigurinn þýðir að Selfossliðið á möguleika á að taka þriðja sætið af Blikum vinni þeir lokaleik sinn á móti Keflavík á laugardaginn. Blikar eru með tveimur stigum meira en hafa lokið keppni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×