Körfubolti

Scottie Pippen til Íslands í lok september

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Scottie Pippen og Michael Jordan.
Scottie Pippen og Michael Jordan. Mynd/AFP
Það hleypur á snærið hjá körfuboltaaunnendum í haust þegar NBA goðsögnin og margfaldur NBA-meistari með Chicago Bulls liðinu, Scottie Pippen, kemur til landsins en þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Götukörfuboltagengið Ball up kemur hingað til lands í lok september og mætir íslenskum liðum í tveimur sýningarleikjum. Með í för sem gestaspilari verður enginn annar en Scottie Pippen og íslenskir körfuboltaaðdáendur iða í skinninu af tilhlökkun.

Scottie Pippen var í lykilhlutverki með Chicago Bulls þegar liðið varð sex sinnum NBA-meistari frá 1991 til 1998 en hann lék þá við hlið Michael Jordan. Pippen var líka í Draumaliði Bandaríkjanna sem vann gull á Ólympíuleikunum 1992 og 1996.

Scottie Pippen lék alls 1178 leiki í NBA-deildinni og var með 16,1 stig, 6,5 fráköst og 5,2 stoðsendingar að meðaltali í leik fyrir Chicago Bulls (1987–1998 og 2003-2004), Houston Rockets (1999) og Portland Trail Blazers (1999–2003).

Pippen skoraði mest 22,0 stig að meðaltali með Chicago Bulls veturinn 1993-94 en hann var valinn í fyrsta úrvalslið NBA þrisvar sinnum á árunujm 1994 til 1996. Hann var ennfremur valinn í varnarlið ársins átta ár í röð frá 1992 til 1999.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×