Fótbolti

Margrét Lára: Eigum að vinna þennan leik

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir verður í byrjunarliði Íslands í kvöld gegn Búlgaríu í undankeppni EM og það mun mæða mikið á henni í sóknarleik íslenska liðsins.

"Við teljum okkur vera orðnar það góðar að önnur lið eigi að að hræðast okkur. Við erum því óhræddar við að segja að þetta sé leikur sem við eigum að vinna," sagði Margrét Lára en Ísland verður klárlega í því hlutverki að sækja í kvöld.

"Við þekkjum það best sjálfar hvernig það er að bakka og halda hreinu. Við eigum að kunna þetta líka. Við verðum að sýna styrk og klára leikinn."

Stelpurnar hafa sett sér það markmið að vinna riðilinn og því kemur ekkert annað til greina en að taka þrjú stig í kvöld.

"Það yrði svekkelsi að taka ekki sigur. Þrjú stig er stefnan."

Margrét Lára hefur verið að leika afar vel í upphafi leiktíðar í Svíþjóð og hún er klár í slaginn þó svo hún sé að glíma við meiðsli.

"Þetta er allt að koma. Ég var í erfiðum meiðslum og það kom bakslag í þau meiðsli. Ég er alltaf að stífna aftan í lærum og það getur verið erfitt á köflum. Þetta snýst samt um hausinn á manni og að rífa sig upp á leikdegi. Ég reikna með því að spila og mun gera mitt besta fyrir liðið."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×