Íslenski boltinn

BÍ/Bolungarvík sótti þrjú stig í Efra-Breiðholtið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þrjú stig í hús hjá lærisveinum Guðjón Þórðarsonar
Þrjú stig í hús hjá lærisveinum Guðjón Þórðarsonar MyndGetty Images
BÍ/Bolungarvík vann 1-0 sigur á Leikni í 1. deild karla í knattspyrnu í dag. Leikið var á Leiknisvelli. Vestfirðingar töpuðu síðasta leik sínum í deildinni gegn ÍA 0-6 á heimavelli en nældu í þrjú stig í Breiðholtinu í dag.

Tomi Amaeobi skoraði eina mark leiksins í síðari hálfleik. Með sigrinum fara Vestfirðingar upp í sjöunda sæti deildarinnar með níu stig. Leiknismenn eru hins vegar í fallsæti með fjögur stig.

„Þetta var baráttuleikur. Við spiluðum til að verjast og lauma inn einu. Það tókst,“ sagði Þórður Ingason markvörður BÍ/Bolungavíkur að leik loknum.

Þórður sem að eigin sögn hafði lítið að gera í markinu segir mikilvægt að sigra eftir stóra tapið gegn Skagamönnum

„Það var hræðilegur leikur. Mjög sterkt að koma á útivöll og taka 3. stig. Léttir fyrir liðið eftir að hafa tapað tveimur leikjum í röð.“

Þórður er gjaldgengur í U-21 landslið Íslands en var ekki valinn í lokahópinn fyrir Evrópumótið. Hann reiknar ekki með því að ná að sjá allan landsleikinn gegn Hvít-Rússum á eftir.

„Við náum fyrri hálfleiknum held ég en svo verðum við í loftinu á leiðinni aftur vestur. Þannig að við missum af seinni hálfleiknum,“ sagði Þórður að lokum.

Öllum leikjum 6. umferðar er nú lokið. Næstu leikir fara fram á miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×