Íslenski boltinn

Víkingur sigraði KA - HK náði í stig gegn Haukum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aron Bjarnason og Hilmar Trausti Bjarnason í baráttu um boltann.
Aron Bjarnason og Hilmar Trausti Bjarnason í baráttu um boltann. Mynd/HAG
Tveir leikir fóru fram í 9. umferð 1. deildar í knattspyrnu í kvöld. Í Ólafsvík sigruðu heimamenn KA 2-1 eftir að hafa lent marki undir og á gervigrasinu í Hafnarfirði skildu Haukar og HK jöfn 1-1.

Allt stefndi í sigur Hauka að Ásvöllum sem hefði fleytt liðinu upp að hlið Selfyssinga í 2. sæti deildarinnar. Björgvin Stefánsson kom liðinu yfir í fyrri hálfleik en rétt fyrir lok leiksins skoraði varamaðurinn Atli Valsson jöfnunarmark HK.

HK hefur gert tvö jafntefli í tveimur síðustu leikjum undir stjórn Ragnars Gíslasonar. Liðið situr þó enn á botni deildarinnar með þrjú stig og á eftir að vinna sinn fyrsta sigur.

Í Ólafsvík unnu heimamenn mikilvægan sigur á KA. Eitt stig skildi liðin að fyrir leikinn en Ólsarar fara með sigrunum úr 10. sæti deildarinnar í það fimmta. Hallgrímur Mar Steingrímsson kom KA-mönnum yfir snemma leiks en Lettinn Artjoms Goncars jafnaði úr vítaspyrnu skömmu fyrir hlé. Það var svo Valsarinn Guðmundur Steinn Hafsteinsson sem tryggði heimamönnum stigin þrjú með marki í síðari hálfleik.

Haraldur Guðjónsson ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis var í Hafnarfirðinum í kvöld og tók nokkrar myndir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×