Íslenski boltinn

Tómas Ingi: Auðvitað er þetta sárt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Tómas Ingi í leik með HK.
Tómas Ingi í leik með HK.
Tómas Ingi Tómasson var í dag rekinn sem þjálfari 1. deildarliðs HK. Við starfi hans tekur Ragnar Gíslason sem hefur verið yfirþjálfari yngri flokka hjá HK. Kópavogsliðinu hefur ekki gengið vel undir stjórn Tómasar Inga og situr á botni 1. deildarinnar með aðeins eitt stig eftir sjö leiki.

"Auðvitað er sárt að vera rekinn því þetta er höfnun. Ég átti mikið verk eftir óunnið með liðinu og fannst leikmenn standa við bakið á mér. Að sama skapi skil ég þessa ákvörðun HK enda árangurinn ekki góður," sagði Tómas Ingi við Vísi.

Tímasetningin á uppsögninni vekur óneitanlega athygli enda Tómas Ingi nýkominn heim frá Danmörku þar sem hann var með U-21 árs landsliðinu. Einhverjar sögusagnir voru um að hann fengi að fjúki fyrir EM en þar sem hann hélt starfinu var búist við því að hann fengi lengri tíma í starfi en af því varð ekki.

"Tímasetningin kemur svolítið á óvart en það er ekki til nein góð tímasetning þannig séð fyrir svona ákvarðanir," sagði Tómas Ingi en HK á leik gegn Grindavík í bikarnum annað kvöld og Ragnar fær lítinn tíma til þess að undirbúa liðið fyrir þann leik.

Sjálfur er Tómas Ingi ekki á þeim buxunum að gefast upp þó svo illa hafi gengið í fyrstu atrennu sem þjálfari.

"Ég tel mig hafa mikið að gera í fótbolta og mun reyna að styrkjast eftir þessa reynslu. Ég hef mikla þekkingu á íþróttinni og mun reyna að miðla þeirri þekkingu áfram. Ég ætla að vera lengi í boltanum og held áfram á minni braut."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×