Íslenski boltinn

Bikarævintýri BÍ/Bolungarvíkur heldur áfram

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Úr leik Þróttar og BÍ.
Úr leik Þróttar og BÍ.
Lærisveinar Guðjóns Þórðarsonar í BÍ/Bolungarvík halda áfram að fara á kostum í Valitor-bikarnum. BÍ er komið í undanúrslit í fyrsta skipti í sögu félagsins eftir 3-2 sigur á Þrótti á Torfnesvelli í dag.

Leikurinn byrjaði með gríðarlegum látum því Guðfinnur Þórir Ómarsson kom Þrótturum yfir eftir rúma mínútu. Þróttarar voru nánast enn að fagna markinu þegar Nicholas Deverdics jafnaði leikinn fyrir heimamenn með marki úr aukaspyrnu.

Heimamenn létu kné fylgja kviði og Alexander Veigar Þórarinsson kom BÍ/Bolungarvík yfir á 8. mínútu. Lygileg byrjun.

Fleiri mörk voru þó ekki skoruð í fyrri hálfleik og heimamenn því marki yfir í hálfleik.

Síðari hálfleikur var mjög fjörugur. Nicholas Deverdics kom BÍ í 3-1 á 65. mínútu og aftur með marki beint úr aukaspyrnu. Glæsilegt mark.

Þróttarar tóku miðju, brunuðu upp völlinn og Sveinbjörn Jónasson lét vaða af löngu færi. Boltinn söng í netinu. Ótrúleg mínúta og staðan 3-2.

Þróttarar gerðu allt hvað þeir gátu til þess að jafna leikinn og næst komust þeir með skalla í slá undir lokin. Boltinn vildi þó ekki inn og Djúpmenn þar af leiðandi komnir í undanúrslit keppninnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×