Fótbolti

Telma: Við ætlum ekki að standa okkur svona illa aftur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Telma Þrastardóttir.
Telma Þrastardóttir. Mynd/Fésbókarsíða KSÍ
Telma Þrastardóttir var einn besti leikmaður 17 ára landsliðs kvenna sem tapaði 0-4 á móti Spáni í undanúrslitum Evrópumótsins í dag. Íslenska liðið spilar um bronsið á mótinu og Telma og félagar ætla að gera þar miklu betur en í dag.

„Ég hefði getað gert betur. Ég reyndi mitt besta en mér fannst ég miklu betri í seinni hálfleiknum eins og allt liðið. Það var stress í okkur en ekki eins hjá þeim því þær voru hérna í fyrra en þetta var fyrsta skiptið okkar. Hefðum við staðið okkur jafn vel í fyrri hálfleiknum og í seinni hálfleik þá hefðum við unnið leikinn," sagði Telma Þrastardóttir í viðtali við Írisi Björk Eysteinsdóttur, fjölmiðlafulltrúa liðsins eftir leikinn.

„Það tók okkur 40 mínútur að komast í gang. Við ætlum að einbeita okkur að þriðja sætinu núna. Við ætllum ekki að standa okkur svona illa aftur. Við ætlum að slaka á frá byrjun og halda bolta betur. Við ætlum að berjast betur og vilja hafa boltann. Ég hef alla trú á okkar liði," sagði Telma Þrastardóttir sem spilaði hægri kant í fyrri hálfleik en var færð fram eftir að Aldís fór útaf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×