Íslenski boltinn

Ólafur: Okkur var refsað grimmilega fyrir allt sem við gerðum illa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari.
Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari. Mynd/Anton
Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, var allt annað en sáttur með tapleik íslenska landsliðsins í Ungverjalandi í kvöld. Íslenska liðið tapaði 0-4 fyrir Ungverjum og hefur aldrei tapað stærra undir hans stjórn.

„Þetta var alls ekki gott. Okkur var refsað grimmilega fyrir allt sem við gerðum illa," sagði Ólafur en lokakafli íslenska liðsins í leiknum var skelfilegur.

„Það dregur auðvitað af mönnum þegar staðan er orðin 3-0 og 4-0. Það er líka oft þannig í þessum æfingaleikjum þegar búið er að skipta inn á fjórum til sex mönnum þá dettur oft takturinn úr leik. Það gerði það svo sannarlega hjá okkur. Tapið er mjög slæmt, það er ljóst," sagði Ólafur.

Íslenska liðið gaf Ungverjum fyrsta markið á 32. mínútu en Ungverjar bættu síðan við öðru marki á lokamínútu fyrir hálfleiksins.

„Ég held að markið rétt fyrir leikhlé hafi verið okkur mjög erfitt því mér fannst þeir ekki vera að skapa sér neitt mikið í fyrri hálfleik og leikurinn var þá í þokkalegu jafnvægi. Auðvitað var slæmt að fá annað markið á sig þar sem við náðum ekki einu sinni að taka miðju," sagði Ólafur.

„Við töluðum um það í hálfleik að gefast ekki upp og okkur fannst hlutirnir vera að ganga þannig að fyrst að þeir gátu gert tvö mörk á okkur í fyrri hálfeik þá ættum við alveg að geta það líka í seinni hálfleik. Við ætluðum að mæta þeim grimmir í seinni hálfleik og gerðum það ágætlega. Því miður ekki það ekki lengra en það," sagði Ólafur.

„Það eru líka vonbrigði að við fengum engin færi í leiknum. Það sem vantar er að klára okkar sóknir.

Ég spilaði bara með einn varnarsinnaðan miðjumann og það eru því ákveðin vonbrigði að við skyldum ekki skapa okkur fleiri færi," sagði Ólafur.

„Það er slæmt að tapa og það fer á sálina á mönnum þegar hlutirnir ganga ekki upp. Það er bara staðreynd. Þetta lítur ekki vel út og auðvitað fer þetta líka á sálina hjá mér. Þegar liðinu gengur ekki vel þá er baulað á þjálfarana og við vitum það og þekkjum það," sagði Ólafur aðspurður um stöðu sína með liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×