Íslenski boltinn

Guðlaugur Victor: Sýndum það að við getum unnið hvaða lið sem er

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson í leiknum í kvöld.
Guðlaugur Victor Pálsson í leiknum í kvöld. Mynd/Vilhem
Guðlaugur Victor Pálsson lék vel á miðju íslenska 21 árs liðsins þegar liðið vann 2-1 sigur á Belgíu á Vodafonevellinum í kvöld í fyrsta leik liðsins í undankeppni EM 2013.

„Þetta var hörkusigur hjá okkur en þetta var alls ekki létt. Við börðumst eins og ljón og þetta datt fyrir okkur í lokin," sagði Guðlaugur Victor Pálsson kátur eftir leik.

„Þeir voru miklu betri á fyrstu fimmtán mínútunum í seinni hálfleik en eftir að Björn Bergmann fékk þetta færi eftir fimmtán mínútur þá komum við okkur aftur inn í leikinn. Það sýndi það að við höfum mikla trú á okkar liði," sagði Guðlaugur Victor en Björn Bergmann Sigurðarson skoraði bæði mörk íslenska liðsins þar á meðal sigurmarkið þremur mínútum fyrir leikslok.

„Við vitum hvað Björn Bergmann getur, hann er frábær "slúttari" og frábær sóknarmaður. Hann á hrós skilið fyrir þessi tvö mörk og hann var alveg frábær í dag eins og allt liðið," sagði Guðlaugur Victor.

„Við erum mjög óánægðir með markið sem við fengum á okkur en við gerðum þá smá mistök í vörninni. Við rifum okkur bara upp úr því að náðum að setja annað mark," sagði Guðlaugur Victor en íslenska liðið er í riðli með Belgíu, Englandi, Aserbaídsjan og Noregi.

„Við eigum Noreg í næsta leik í næstu viku og núna förum við bara að einbeita okkur að þeim leik. Það verður ekkert létt verkefni en við verðum að koma inn í þann leik með sama hugarfari og ná líka í þrjú stig þar," sagði Guðlaugur Victor en hann er einn af fáum leikmönnum liðsins sem tók í ævintýri 21 árs liðsins síðustu ár þar sem liðið komast alla leið í úrslitakeppni EM.

„Það  er ótrúlegur munur á þessum tveimur liðum en við sýndum það og sönnuðum í dag að við eigum alveg að geta gert sömu hluti og hitti liðið gerði. Það er okkar stefna að komast alla leið og við sýndum það í dag að við getum unnið hvaða lið sem er. Núna verðum við bara að standa saman fyrir næsta leik, ná þar líka í þrjú stig og byrja þessa undankeppni með stæl," sagði Guðlaugur Victor að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×