Íslenski boltinn

Niðurlægjandi að þurfa að spila leikinn í bænum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Tryggvi Guðmundsson verður að öllum líkindum grímulaus í kvöld
Tryggvi Guðmundsson verður að öllum líkindum grímulaus í kvöld Fréttablaðið/HAG
„Þetta er stór stund fyrir okkur hjá ÍBV en það er ekki hægt að neita því að það er niðurlægjandi að þurfa að koma í bæinn til þess að spila Evrópuleik," sagði Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV, en hans lið tekur á móti írska liðinu Saint Patrick's í Evrópudeildinni í kvöld. Leikurinn fer fram á heimavelli Vals, Vodafone-vellinum.

Heimavöllur ÍBV, Hásteinsvöllur, uppfyllir ekki skilyrði fyrir Evrópuleiki og því urðu Eyjamenn að koma í bæinn til að spila. Eyjamönnum hefur engu að síður gengið vel á Vodafone-vellinum, þannig að þeim líður ekkert sérstaklega illa þar.

„Þetta er hörkuverkefni. Við erum að mæta liði sem á að vera betra en við. Þeir hafa unnið þrettán leiki í röð í írska boltanum og eru komnir á toppinn. Þetta er svona týpískt breskt lið eins og maður sá í svarthvítu í sjónvarpinu í gamla daga," sagði Heimir, en hann hefur kynnt sér andstæðinginn vel.

„Þeir spila 4-4-2 með kraftmikla framherja. Allir leikmennirnir í liðinu eru gríðarlega vinnusamir og kunna að setja pressu á andstæðinginn. Þeir eru líka harðir og renna sér mikið. Það verður væntanlega mikið tæklað á vellinum og kannski svo mikið að Valsmenn sjái eftir því að hafa lánað okkur völlinn," sagði Heimir léttur.

Hann er hæfilega bjartsýnn fyrir leikinn og segir að sínir menn verði að spila vel.

„Við verðum að halda boltanum á jörðinni og vera mjög klókir í okkar aðgerðum. Við fórum í háloftaspyrnur gegn Stjörnunni um daginn og það gengur ekki. Við verðum að láta boltann rúlla á jörðinni. Svo verðum við að sjá hvað gerist. Ég held þetta verði skemmtilegur leikur og vonandi fjölmennir fólk," sagði Heimir, en leikurinn hefst klukkan 18.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×