Íslenski boltinn

Sjöunda tapið í röð hjá 21 árs landsliðinu - töpuðu 0-5 í Belgíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eyjólfur Sverrisson og Tómas Ingi Tómasson stýra 21 árs landsliðinu.
Eyjólfur Sverrisson og Tómas Ingi Tómasson stýra 21 árs landsliðinu. Mynd/Stefán
Íslenska 21 árs landsliðið lék sinn síðasta leik í undankeppni EM í kvöld þegar strákarnir hans Eyjólfs Sverrissonar töpuðu 5-0 á móti Belgíu í Freethiel. Íslenska liðið vann Belga í fyrsta leiknum sínum í riðlinum en tapaði síðan sjö síðustu leikjunum sínum með markatölunni 2-20.

Belgarnir voru 1-0 yfir í hálfleik í kvöld en þeir skoruðu síðan fjögur mörk á síðustu tuttugu mínútum leiksins. Igor Vetokele, leikmaður FCK Kaupmannahafnar, skoraði tvö mörk fyrir Belga alveg eins og Michy Batshuayi frá Standard Liege en fimmta markið gerði Wannes Van Tricht frá KV Mechelen.

Connor Wickham tryggði Englendingum 1-0 sigur á Noregi á sama tíma en Englendingar tryggðu sér sigur í riðlinum og sæti á EM með þeim sigri. Norðmenn og Belgar eiga eftir að mætast en þar verður spilað upp á annað sætið í riðlinum og þar með sæti í umspili um laus sæti á EM.

Íslenska liðið endaði í neðsta sæti riðilsins fjórum stigum á eftir Aserbaídsjan en ekkert lið skoraði líka færri mörk eða fékk á sig fleiri mörk en Ísland í þessum riðli. Frammistaða íslenska liðsins eru mikil vonbrigði en árgangurinn á undan kom íslenska liðinu alla leið í úrslitakeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×