Íslenski boltinn

Fimm marka sigur hjá stelpunum og sætið tryggt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Metta Jensen skoraði tvennu annan leikinn í röð.
Elín Metta Jensen skoraði tvennu annan leikinn í röð. Mynd/Daníel
Stelpurnar í íslenska 19 ára landsliðinu í fótbolta eru komnar áfram í milliriðil eftir öruggan 5-0 sigur á Moldavíu í dag í undankeppni Evrópumótsins en þetta var annar leikur liðsins í riðlinum sem leikinn er í Danmörku.

Elín Metta Jensen og Telma Þrastardóttir komu báðar að þremur mörkum í þessum leik. Elín Metta skoraði tvö mörk í fyrri hálfleiknum og lagði að auki upp mark fyrir Sigríði Láru Garðarsdóttur

Telma lagði upp bæði mörkin fyrir Elínu Mettu og skoraði síðan fjórða markið sjálf í seinni hálfleiknum eftir sendingu Láru Kristínar Pedersen. Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði síðan fimmta markið úr vítaspyrnu eftir að Aldís Kara Lúðvíksdóttir var felld í teignum.

Íslenska liðið vann 4-0 sigur á Slóvakíu í fyrsta leik sínum og hefur því unnið tvo fyrstu leiki sína í riðlinum. Elín Metta hefur skorað fjögur mörk í þessum tveimur leikjum og Telma Þrastardóttir er búin að gefa þrjár stoðsendingar.

Síðasti leikur liðsins í riðlinum verður gegn heimastúlkum á fimmtudaginn en þessar tvær þjóðir hafa þegar tryggt sér sæti í milliriðlum. Danir unnu Slóvaka í dag, 5–0, og hafa sex stig líkt og Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×