Enski boltinn

Ísland vann til markaðsverðlauna UEFA

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Á árlegri verðlaunaafhendingu UEFA fyrir markaðsmál tengd knattspyrnu, sem fram fór í gærkvöldi í Róm, hlaut Ísland verðlaun fyrir markaðssetningu á Pepsi-deildinni í knattspyrnu. Fimmtán þjóðir kepptu við Ísland í flokknum „Best Sponsorship Activation".

Af þessum 15 þjóðum voru þrjár tilnefndar: Ísland, Noregur og Kasakstan. Portúgal fékk sérstök aukaverðlaun í þessum flokki en aðrar þjóðir sem sendu inn sínar umsóknir voru m.a. England, Þýskaland, Holland, Austurríki, Frakkland og Skotland.

Fimm aðilar skipuðu dómnefnd UEFA sem ákvarðaði þessi verðlaun og voru þar aðilar úr ýmsum áttum s.s. prófessor í markaðsfræði frá Essec viðskiptaskólanum í París, yfirmaður kostunarmála hjá Heineken og forstjóri Eurosport.

„Ástríða fyrir íslenskri knattspyrnu" var heitið á herferðinni og vann Ölgerðin efnið með VERT-markaðsstofu þar sem reynt var að varpa ljósi á hvað það er sem gerir íslenska knattspyrnu einstaka og sérstaða hvers liðs dregin fram.

Í fréttatilkynningu frá Knattspyrnusambandi Íslands kemur fram að verðlaunin séu mikill heiður fyrir íslenska knattspyrnu og alla þá aðila sem koma með einhverjum hætti að Pepsi-deildinni, ekki síst félögin í Pepsi-deildum karla og kvenna.

Á heimasíðu UEFA má finna upplýsingar um verðlaunaafhendinguna, smellið hér

Myndbandið sem fylgdi umsókn KSÍ má sjá með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×