Körfubolti

Reynslan hafði betur | Golden State úr leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Lee, leikmaður Golden State, í baráttunni í nótt.
David Lee, leikmaður Golden State, í baráttunni í nótt.

San Antonio er komið áfram í úrslit Vesturdeildarinnar í NBA-deildinni í körfubolta eftir sigur á Golden State í nótt, 94-82.

Þar með vann San Antonio rimmu liðanna, 4-2, og mætir Memphis í úrslitum vestursins.

Tim Duncan var með nítján stig fyrir San Antonio og Kawhi Leonard sextán auk þess að taka tíu fráköst. Tony Parker byrjaði illa en skoraði tíu af þrettán stigum sínum í fjórða leikhluta.

Stephen Curry, sem hefur verið að glíma við ökklameiðsli, hefur ekki verið að skjóta vel í síðustu leikjum en hann hitti úr tíu af 25 skotum sínum í nótt og skoraði 22 stig. Jarrett Jack skoraði fimmtán.

Hið margreynda lið San Antonio hafði í raun betur á flestum sviðum í nótt en ljóst er að ungt lið Golden State á framtíðina fyrir sér. Auk meiðsla Curry var nýliðinn Harrison Barnes tæpur í leiknum í nótt sem hafði sitt að segja.

Tony Parker segir að liðið sé ólmt í að komast aftur í lokaúrslitin, þar sem liðið var síðast árið 2007. „Það vilja allir láta reyna á þetta einu sinni enn,“ sagði hann.

Carmelo Anthony skoraði 28 stig í nótt.Mynd/AP

Miami Heat þurfa enn að bíða eftir andstæðingi sínum í úrslitum Austurdeildarinnar þar sem að staðan í rimmu Indiana og New York er 3-2 fyrir Indiana, eftir sigur New York í leik liðanna í nótt.

New York vann tíu stiga sigur, 85-75, þar sem að Carmelo Anthony skoraði 28 stig.

Næsti leikur fer fram í Indiana og þar geta heimamenn tryggt sér farseðilinn í úrslitarimmu austursins gegn Miami.

Paul George var með 23 stig, sex fráköst og sex stoðsendingar fyrir Indiana sem saknaði leikstjórnandans George Hill. Hann var frá vegna heilahristings en án hans tapaði liðið boltanum nítján sinnum í leiknum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×