Körfubolti

Miami og Memphis komin í 3-1

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Marc Gasol og Darrell Arthur, leikmaður Oklahoma City.
Marc Gasol og Darrell Arthur, leikmaður Oklahoma City. Nordic Photos / Getty Images
Miami og Memphis unnu bæði lykilleiki í rimmum sínum í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt.

Meistararnir í Miami unnu þægilegan sigur á Chicago, 88-65, og náðu þar með 3-1 forystu í einvíginu. LeBron James skoraði 27 stig fyrir Miami og gaf átta stoðsendingar.

Þetta er næstlægsti stigafjöldi andstæðings Miami í sögu úrslitakeppninnar en Chicago sá aldrei til sólar í leiknum.

Chris Bosh var með fjórtán stig en Dwyane Wade hafði hægt um sig og skoraði aðeins sex.

Luol Deng og Kirk Hinrich voru frá vegna meiðsla, sem og Derrick Rose vitanlega. Carlos Boozer var með fjórtán stig og tólf fráköst. Nate Robinson klikkaði á öllum tólf skotum sínum í leiknum, sem segir sitt.

Það var meiri spenna í hinum leiknum en Memphis þurfti framlengingu til að vinna sigur á Oklahoma City, 103-97.

Oklahoma byrjaði mun betur og komst mest sautján stigum yfir. En Memphis hefur verið frábært á heimavelli og vann sig aftur inn í leikinn.

Kevin Durant náði að tryggja Oklahoma City framlengingu á lokasekúndum venjulegs leiktíma, eins og sjá má hér neðst í fréttinni, en hann klikkaði á öllum fimm skotum sínum í framlengingunni og Memphis gekk á lagið. Hann var alls með 27 stig í leiknum.

Mike Conley skoraði 24 stig fyrir Memphis og þeir Marc Gasol og Zach Randolph náði báðir þreföldum tvennum - báðir með 23 stig og rúm tíu fráköst.

Oklahoma City er vitanlega án Russell Westbrook og virðist á leið út úr úrslitakeppninni, rétt eins og Chicago.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×