Körfubolti

Phil Jackson: Tæki Bill Russell á undan Jordan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bill Russell og Michael Jordan.
Bill Russell og Michael Jordan. Mynd/AFP

Phil Jackson, ellefufaldur meistaraþjálfari í NBA-deildinni í körfubolta, komst í fréttirnar á dögunum þegar hann bar saman þá Michael Jordan og Kobe Bryant í nýrri bók sinni. Jackson hrósaði þá Jordan mikið á kostnað Bryant og það var ekki að heyra á öðru en MJ væri að mati Jackson sá besti í sögunni.

Það er þó ekki alveg svo gott. Jackson myndi nefnilega ekki velja Jordan fyrst í liðið sitt fengi hann að velja úr öllum NBA-leikmönnum sögunnar en það kom í ljós í viðtali hans á Time.com.

„Það er mitt mat að leikmaðurinn sem yrði að vera í liðinu væri Bill Russell. Hann vann ellefu meistaratitla sem leikmaður. Meistaratitlar eru minn mælikvarði á yfirburðum leikmanna," sagði Phil Jackson við blaðamanna Time.com.

Jackson var hinsvegar ekki eins viljugur í að velja á milli þeirra Michael Jordan og Kobe Bryant. „Ég myndi bara kasta upp á það. Þeir voru það góðir að það skipti ekki máli hvor þeirra kæmi upp," sagði Jackson.

Jackson vann sex meistaratitla með Michael Jordan hjá Chicago Bulls og fimm með Kobe Bryant hjá Los Angeles Lakers.

Bill Russell var miðherji Boston Celtics frá 1956–1969. Hann vann ellefu titla á þrettán tímabilum þar af tvo síðustu titlana sem spilandi þjálfari. Russell var með 15,1 stig, 22,5 fráköst og 4,3 stoðsendingar að meðaltali í leik á ferlinum og varði auk þess fjölmörg skot en sú tölfræði var ekki tekin saman á hans tíma.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×