Körfubolti

Dramatískur sigur Miami í framlengingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

LeBron James var sem fyrr í aðalhlutverki þegar að Miami tók forystu gegn Indiana í úrslitarimmu Austurdeildarinnar í NBA-deildinni í körfubolta.

James skoraði sigurkörfu leiksins á lokasekúndu framlengarinnar, 103-102, eftir æsispennandi lokamínútur bæði í lok venjulegs leiktíma og framleningarinnar.

Leikurinn var í járnum lengst af. Átján sinnum var jafnt og sautján sinnum skiptust liðin á því að vera í forystu - þar af tvívegis á síðustu 2,2 sekúndum leiksins.

Ray Allen hefði átt að tryggja sínum mönnum sigurinn í venjulegum leiktíma. Hann fór á vítalínuna þegar sautján sekúndur voru eftir og Miami var tveimur stigum yfir. Þessi örugga vítaskytta klikkaði hins vegar á fyrra vítinu og Miami hélt í lokasóknina þremur stigum undir.

Paul George færði sér þetta í nyt og jafnaði leikinn með þriggja stiga körfu þegar 0,7 sekúndur voru eftir. Þar með þurfti að framlengja leikinn.

George var svo aftur á ferðinni í framlengingunni. Hann sótti villu utan þriggja stiga línunnar þegar 2,2 sekúndur voru eftir og kom Indiana einu stigi yfir með því að setja öll þrjú vítin niður.

Þá var komið að LeBron James. Hann keyrði inn að körfunni á þeim nauma tíma sem var til leiksloka og kláraði leikinn með sniðskoti um leið og leiktíminn rann út.

James átti stórleik og var með þrefalda tvennu - 30 stig, tíu fráköst og tíu stoðsendingar. Dwyane Wade var með nítján stig en Miami missti Mario Chalmers af velli vegna meiðsla.

George skoraði 27 stig fyrir Indiana og David West 26. Næsti leikur í rimmunni fer fram föstudagskvöld í Miami.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×