Körfubolti

NBA: LeBron með 43 stig á móti gamla liðinu sínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Vísir/Getty
LeBron James bauð upp á skotsýningu í fyrsta leikhluta þegar Miami Heat vann nauman sigur á hans gömlu félögum í Cleveland Cavaliers í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Heat vann sinn sjötta leik í röð án Dwyane Wade en þurftu allar 48 mínúturnar til að landa sigrinum á gamla heimavelli James.

LeBron James skoraði 25 af 43 stigum sínum í fyrsta leikhlutanum þegar Miami Heat vann 100-96 útisigur á Cleveland Cavaliers en meistararnir léku eins og áður sagði án Dwyane Wade í leiknum. James hitti úr 10 af 11 skotum sínum í fyrsta leikhlutanum þar af skoraði hann fimm þriggja stiga körfur. Staðan eftir leikhlutann var James 25 - Cleveland 25.

Cleveland vantaði sína stærstu stjörnu, Kyrie Irving, en tókst samt að stríða liði Miami sem hefur ekki verið sannfærandi að undanförnu. Jarrett Jack skoraði 22 stig fyrir Cleveland og Dion Waiters var með 17 stig og 11 stoðsendingar.

Þrír af fimm leikjum næturinnar fóru í framlengingu. Jeff Teague skoraði 34 stig í 118-113 sigri Atlanta Hawks á Toronto Raptors í framlengdum leik en þetta var fimmti sigur Atlanta-liðsins í röð. Paul Millsap náði ennfremur fyrstu þrennu sinni á ferlinum en hann var með 19 stig, 13 fráköst og 10 stoðsendingar.

Isaiah Thomas náði sinni fyrstu þrennu á ferlinum þegar hann var með 24 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar í 117-111 sigri Sacramento Kings á Washington Wizards í framlengdum leik.

Wesley Matthews var með 26 stig þegar Portland Trailblazers vann 120-115 sigur á Milwaukee Bucks í framlengingu. Portland hafði tapað fimm af síðustu sex leikjum sínum en stjörnuleikmaður liðsins, LaMarcus Aldridge, er meiddur.

Úrslit í öllum leikjum NBA-deildarinnar í nótt:

Cleveland Cavaliers - Miami Heat 96-100

Atlanta Hawks - Toronto Raptors 118-113 (framlenging)

Portland Trail Blazers - Milwaukee Bucks 120-115 (framlenging)

Sacramento Kings - Washington Wizards 117-111 (framlenging)

Golden State Warriors - Orlando Magic 103-89

Staðan í NBA-deildinni:











NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×