Körfubolti

Nets skrefi nær úrslitakeppninni

Brooklyn Nets vann sinn þrettánda sigur í röð í NBA-deildinni í nótt en þá fóru átta leikir fram.

Um metjöfnun er að ræða hjá félaginu en Brooklyn vann Minnesota, 114-99. Paul Pierce skoraði 22 stig í leiknum, þar af sextán strax í fyrsta leikhluta.

Corey Brewer og Kevin Martin skoruðu 21 stig hvor fyrir Minnesota sem bætti félagsmet á föstudag er liðið skoraði 143 stig gegn Lakers.

Brooklyn er í fimmta sæti Austurdeildarinnar en fjögur efstu liðin hafa þegar tryggt sér sæti í úrslitakeppninni. Brooklyn er nú aðeins hársbreidd frá því að bætast í þann hóp.

Grannarnir í New York Knicks eru í níunda sætinu en liðið vann mikilvægan sigur á Golden State í nótt, 89-84, og hefur nú unnið jafn marga leiki og Atlanta sem er í áttunda og síðasta sætinu sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppninni.

JR Smith skoraði 21 stig fyrir Knicks og Carmelo Anthony nítján auk þess að taka níu fráköst.

New York hefur verið á góðu skriði að undanförnu en Atlanta hefur gefið verulega eftir og tapað sex leikjum í röð.



Oklahoma City vann Utah, 116-96, þar sem Kevin Durant var með 31 stig og níu stoðsendingar. Þetta var 38. leikurinn í röð sem Durant skorar minnst 25 stig.

LA Lakers vann Phoenix Suns, 115-99. Chris Kaman var með 28 stig fyrir Lakers auk þess að taka sautján fráköst í fjarveru Pau Gasol.

Þetta var í aðeins áttunda skiptið á tímabilinu sem Lakers vinnur lið með jákvætt sigurhlutfall í deildinni.

Úrslit næturinnar:

Oklahoma City - Utah 116-96

Cleveland - Indiana 90-76

Brooklyn - Minnesota 114-99

Orlando - Toronto 93-98

Boston - Toronto 102-107

Golden State - New York 84-89

Portland - Memphis 105-98

LA Lakers - Phoenix 115-99

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×