Íslenski boltinn

Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Haukar 3-0 | Eyjamenn fóru létt með Hauka

Guðmundur Tómas Sigfússon á Hásteinsvelli skrifar
Brynjar Gauti Guðjónsson, miðvörður ÍBV, skoraði fyrsta markið.
Brynjar Gauti Guðjónsson, miðvörður ÍBV, skoraði fyrsta markið. Vísir/Vilhelm
Eyjamenn komust áfram í 16-liða úrslit Borgunarbikars karla eftir sannfærandi þriggja marka sigur á Haukum í kvöld, 3-0.

Eyjamenn eru með eitt stig eftir fyrstu fimm leiki Pepsi-deildarinnar en spiluðu sinn fyrsta bikarleik og freistuðu þess að vinna sinn fyrsta sigur.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Eyjamanna, stillti upp nýju liði en hann hélt áfram að nýta sér eiginleika Víðis Þorvarðarsonar sem fremsta miðjumanns en þar hefur hann spilað undanfarna leiki í 4-3-3 leikkerfinu.

Þá stilltu Eyjamenn einnig upp sóknarlínu sem var skipuð leikmönnum sem allir komu til liðsins fyrir leiktíðina en gamla kempan DeanMartin lék á hægri kantinum og stóð sig nokkuð vel.

Haukar höfðu rétt eins og Eyjamenn farið illa af stað á leiktíðinni og eru einungis með tvö stig eftir þrjá leiki í 1. deildinni. SigurbjörnHreiðarsson, þjálfari Hauka, stillti þó upp sókndjörfu liði og hugðist sækja á Eyjamenn frá fyrstu mínútu.

Plön Sigurbjarnar virðast hafa fokið út um gluggann eftir að Eyjamenn skoruðu mark eftir fjórtán mínútna leik eftir mistök hjá markmanni Hauka, Sigmari Inga Siguðrssyni sem missti boltann til BrynjarsGautaGuðjónssonar sem þakkaði pent fyrir sig.

Leikurinn einkenndist af mikilli hörku en ValgeirValgeirsson setti línuna strax til að byrja með en þá spjaldaði hann tvo leikmenn fyrir ekki svo harkalegar tæklingar og við það róaðist leikurinn.

Eyjamenn höfðu átt í stökustu vandræðum með það að koma boltanum í netið í Pepsi-deildinni en þeir skoruðu annað mark og það stórglæsilegt. Matt Garner tók langt innkast inn á teiginn en þá hafði Brynjar Gauti Guðjónsson, hættulegasti leikmaður þeirra í dag fært sig inn í teig Hauka og náði að fleyta boltanum áfram á Víði Þorvarðarson sem skilaði boltanum glæsilega í fjærhornið með bakfallsspyrnu.

Eyjamenn tóku þá yfir leikinn og fengu helling af færum, sum betri en önnur en Haukamenn lágu til baka í seinni hálfleik sem gerði Eyjamönnum erfiðara fyrir. Á 75. mínútu gerðist nokkuð skrýtið atvik en þá fór Jonathan Glenn upp í skallaeinvígi við varnarmann Hauka en lenti svo í jörðinni og þá dæmdi Valgeir Valgeirsson vítaspyrnu sem kom öllum á óvart.

Víðir Þorvarðarson pældi hinsvegar lítið í því og skoraði með föstu skoti í vinstra hornið sem að Sigmar Ingi Sigurðsson náði að slæma hendi í en það var þó ekki nóg því boltinn söng í hliðarnetinu.

Lítið gerðist það sem eftir lifði leiks fyrir utan það að Haukar fengu sitt hættulegasta færi, en þá skaut Gísli Eyjólfsson í stöngina.

Fyrsti sigur Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar í sumar er því staðreynd og ÍBV heldur áfram í bikarkeppninni. Haukar sitja eftir með sárt ennið en geta þó einbeitt sér að stigasöfnun í 1. deildinni í staðinn.

Sigurður Ragnar: Sigurinn aldrei í hættu

„Þetta var mjög góður sigur og ég er virkilega ánægður með liðið. Við skorum þrjú mörk, sköpum fullt af færum og höldum hreinu,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari ÍBV, eftir fyrsta sigurleik liðsins í sumar.

„Haukarnir áttu skot í stöngina, en fyrir utan það þá man ég ekki eftir mörgum færum hjá þeim, heilt yfir var þetta aldrei í hættu.“

„Vonandi erum við komnir í gang núna, það var mikil bæting á leik liðsins núna frá því sem hefur verið og vonandi náum við að fylgja því eftir með góðum leik gegn Þór fyrir norðan,“ sagði Sigurður en Eyjamenn heimsækja Þórsara á Akureyri í næstu umferð Pepsi-deildarinnar og þurfa nauðsynlega á stigum að halda.

„Mér skilst að ÍBV hafi dottið út undanfarin ár í 8-liða úrslitum gegn KR en vonandi náum við að fara lengra en það er bara einn leikur í einu.“

Sigurbjörn Hreiðarsson: Ætluðum okkur sigur eins og alltaf

„Maður er auðvitað fúll að detta úr bikarkeppni. Við ætluðum okkur sigur eins og í öllum leikjum sem við förum í,“ voru fyrstu orð Sigurbjörns Hreiðarssonar, þjálfara Hauka, eftir tap gegn Eyjamönnum í Borgunarbikarnum.

„Menn voru að leggja sig fram, ég var ánægður með þetta og sérstaklega seinni hálfleikinn. Við vorum að komast í stöðu eftir stöðu til þess að búa til eitthvað en þessi leikur ræðst á föstum leikatriðum,“ sagði Sigurbjörn en Eyjamenn skora öll mörk sín eftir föst leikatriði í kvöld.

„Við ætluðum að ná þriðja markinu og minnka þetta í 2-1 og þá hefði þetta verið opið.“

„Ég er ekki ánægður með byrjunina á tímabilinu stigalega séð og ekki í bikar. Það er bara næsti leikur, það er ljóst. Það er gaman að því að Haukar séu komnir á blað í fótboltanum, að fólk geri væntingar og telji okkur vera eitt af betri liðunum sem við viljum svo sannarlega vera,“ var það sem Sigurbjörn hafði að segja um byrjun tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×