Fótbolti

Gylfi: Hefðum sett meiri hraða í leikinn

Anton Ingi Leifsson á Laugardalsvelli skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og Ari Freyr Skúlason fara yfir málin í leiknum.
Gylfi Þór Sigurðsson og Ari Freyr Skúlason fara yfir málin í leiknum. Vísir/Andri Marinó
Gylfi Sigurðsson, miðjumaður Íslands, var þokkalega sáttur með leikinn gegn Eistlandi í kvöld. Hann sagði þó íslenska liðið eiga mikið inni.

„Það er alltaf gott að halda hreinu. Hefði þetta verið alvöru leikur hefðum við sett miklu meiri hraða í leikinn," sagði Gylfi við fjölmiðla.

Leikurinn var síðasti undirbúningsleikur Íslands áður en undankeppni Evrópumótsins hefst næsta haust.

„Það var gott að koma saman hópurinn. Við náðum að fara yfir fullt af hlutum síðustu tíu daga og það var fínt."

„Það var mikilvægt fyrir flesta að koma heilir út úr leiknum. Ég er aðeins búinn að æfa þrisvar sinnum síðasta mánuðinn og það var mikilvægt að komast út úr þessu heill heilsu. Núna getur maður tekið smá frí áður en maður byrjar aftur."

Voru Eistar betri en Íslendingar bjuggust við?

„Ég held að við höfum verið aðeins slappari en við bjuggumst við. Ef allir okkar menn hefðu verið á miðju tímabili þá hefðum við valtað yfir þetta lið."

„Það var kjörið tækifæri fyrir að gefa öðrum mönnum tækifæri, þeim sem hafa verið við hópinn. Ég held að það hafi verið tveir sem voru að spila sinn fyrsta landsleik og það er jákvætt."

Næsti leikur er í undankeppninni gegn Tyrkjum. Aðspurður hvort Gylfi hefði verið til í einn æfingarleik í viðbót var Gylfi ekki alveg viss.

„Auðvitað hefði verið fínt að fá einn leik í viðbót, en ég held að við höfum náð að fara yfir það sem við vildum á fundunum í Austurríki og hér heima þannig ég held að þetta sé bara fínt," sagði Gylfi Sigurðsson í leikslok.


Tengdar fréttir

Ögmundur: Hitti beint í punginn á mér

Ögmundur Kristinsson, markvörður Íslands, var ánægður með að hafa spilað sinn fyrsta landsleik í kvöld. Hann sagðist hafa verið aðeins meira stressaður en hann bjóst við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×