Fótbolti

Sverrir Ingi: Stór ákvörðun hjá dómaranum

Ingvi Þór Sæmundsson á Laugardalsvelli skrifar
„Þetta er gífurlega svekkjandi. Við vorum búnir að halda þeim ágætlega frá markinu okkar allan leikinn," sagði Sverrir Ingi Ingason, fyrirliði Íslands, eftir jafnteflið gegn Dönum í kvöld en með því varð það ljóst að drengirnir fara ekki á EM.

„Þeir eru meira að dúttla svona fyrir utan teig, en mér finnst við ekki vera nægilega skarpir sóknarlega. Í föstum leikatriðum og þess háttar, þá erum við meira og minna sofandi. Einnig í markinu sem þeir skora, þá erum við ekki að dekka. Það gerir útslagið."

„Það var voðalega sárt. Því þá þurftum við tvö mörk, því útivallarmarkið telur auka. Þetta var erfitt, en við náðum að ná inn einu. Hann fór í mig þarna í teignum og þetta var pjúra víti. Við höfðum bara ekki meiri tíma," sagði Sverrir og aðspurður út í atvikið þegar markið var dæmt af Íslandi svaraði hann:

„Mér fannst bara markvörðurinn verða hræddur. Hann er búinn að missa boltann áður en Óli fer í einvígið við hann. Hann nær aldrei að grípa boltann og Óli á alveg jafn mikinn rétt á að fara í boltann og markmaðurinn. Hann má nota hendurnar og það er yfirleitt alltaf brot þegar þú snertir hann."

„Virkilega stór ákvörðun hjá dómaranum."

„Völlurinn var gífurlega erfiður. Hann var frosinn og það var gífurlega erfitt að hemja boltann. Þegar við fengum sóknarmöguleikana þá vorum við ekki nægilega skarpir. Við hefðum átt að fá fleiri fyrirgjafir þvi við erum með stóra leikmenn og svona í teignum," sagði Sverrir að lokum.

Atvikið má sjá hér efst í fréttinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×