Innlent

Þrjátíu milljarðar frá ríkinu til upplýsingatæknifyrirtækja

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Milljarðar hafa farið úr ríkissjóði til upplýsingatæknifyrirtækja.
Milljarðar hafa farið úr ríkissjóði til upplýsingatæknifyrirtækja. Vísir
Rúmum þrjátíu milljörðum af ríkisfé hefur verið varið í greiðslur til upplýsingatæknifyrirtækja á árunum 2007–2013. Árlega á þessu tímabili hafa 3,5 til 4,8 milljarðar króna farið til slíkra fyrirtækja. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata.

Upplýsingarnar ná til viðskipta og samninga sem stofnanir ríkisins sem flokkast til A-hluta ríkissjóðs hafa greitt. Þá takmarkast þær einnig við þær stofnanir sem nota Oracle bókhaldskerfið en það gera flestar stofnanna. Ekki er hægt að fá upplýsingar um aðra ríkisaðila og hvað þeir hafa varið miklu fé til upplýsingatæknifyrirtækja. Heildartalan er því á huldu.

Mestu hefur Fjársýsla ríkisins eytt eða 5,3 milljörðum króna. Ríkisskattstjóri og tollstjóri koma svo næsta á listanum en þær stofnanir hafa eytt 2,1 milljarði og 1,4 milljarði í þjónustu upplýsingatæknifyrirtækja. Sex stofnanir hafa eytt meira en milljarði í þjónustu slíkra fyrirtækja á tímabilinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×