Innlent

Utanríkisráðuneytið með pyndingarskýrsluna til skoðunar

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Sigmundur Davíð segir málið vera til skoðunar í ráðuneyti Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra.
Sigmundur Davíð segir málið vera til skoðunar í ráðuneyti Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra. Vísir/Daníel
Utanríkisráðuneytið er nú að yfirfara skýrslu bandaríska þingsins um pyndingar á föngum í haldi Bandaríkjamanna. Úrdráttur úr skýrslunni var birtur opinberlega á dögunum en skýrslan sjálf er ríkisleyndarmál í Bandaríkjunum. Þetta kom fram í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.

Árni Páll spurði forsætisráðherra út í skýrslu bandaríska þingsins í morgun.Vísir/Ernir
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagðist ekki kunnugt um að íslensk stjórnvöld hefðu gefið Bandaríkjunum heimild til að nota aðstöðu á Íslandi til að flytja fanga til og frá yfirheyrslustöðum CIA. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði það mjög mikilvægt að grennslast vandlega fyrir um tildrög þess að fangaflugvélar lentu hér á landi.

Áður hefur verið greint frá því að flugvélar á vegum Bandaríkjastjórnar sem notaðar voru til að flytja fanga til og frá yfirheyrslustöðum í Evrópu, svokölluðum „Black sites“, hafi millilent á Íslandi.

Sjá einnig: Fjórtán þingmenn vilja fordæma pyndingar CIA

Ein af fangaflugvélum CIA á Reykjavíkurflugvelli.Vísir/Einar
„Það má taka undir það með háttvirtum þingmanni að auðvitað er þetta mjög alvarlegt mál og mikilvægt að kanna á allan hátt, sem kostur er, hvort aðstaða á Íslandi hafi verið misnotuð í þessum aðgerðum,“ sagði Sigmundur Davíð og vísaði til þess að málið væri til skoðunar í utanríkisráðuneytinu.

Minntist forsætisráðherra einnig á að árið 2007 hafi verið skrifuð skýrsla um fangaflug sem hafi verið til umfjöllunar hjá stjórnvöldum.

„Mér skilst að við fyrstu athugun í utanríkisráðuneytinu hafi ekkert komið fram í þessari skýrslu um Ísland og raunar ekki um fangaflutninga heldur en það breytir þó ekki því að það er rétt að leita allra leiða til að tryggja að menn hafi allar þær upplýsingar sem kostur er á í þessu máli,“ sagði Sigmundur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×