Lífið

„Satanísk orka í kringum Framsókn“

Þórarinn Ingi Jónsson skrifar
Snorri Ásmundsson þekkir engan nema Óla Palla sem kaus Framsókn.
Snorri Ásmundsson þekkir engan nema Óla Palla sem kaus Framsókn. fréttablaðið/ernir
„Framsóknarmenn eru mér mikið hugleiknir,“ segir Snorri Ásmundsson myndlistarmaður sem opnar sýninguna Framsóknarmaðurinn í Betra veður Window Gallery á Laugavegi 41 í dag.

Snorri opnar sýninguna með gjörningi klukkan 17 en hann vill ekki gefa of mikið upp um innihaldið. „Mér finnst áhugavert hversu margir kusu þá en þeir eru alltaf einhvers staðar í leyni, því ég veit ekki um neinn nema þennan Óla Palla [Ólaf Pál Gunnarsson] sem hefur kosið Framsókn,“ segir Snorri, sem stofnaði flokkinn Vinstri hægri snú fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2002 og bauð sig fram í embætti til forseta 2004.

„Ég man þegar ég bauð mig fram í seinni kosningunum, þá var ég svolítið að leggja Framsókn í einelti en það er rosalega erfitt að gera það ekki. Það er einhver satanísk orka í kringum þá. Þetta er ekkert rosalega kærleiksrík orka, meira svona gjörspillt, eins og sjúkdómur.“

Hann opnar síðan aðra myndlistarsýningu í dag klukkan 17.30 í Galleríi Bakaríi, sem nefnist Gyðjurnar. „Þetta eru glæný málverk af rómverskum og norrænum gyðjum en fyrirmyndirnar eru þokkadísir úr íslenskum og amerískum afþreyingarveruleika,“ segir Snorri, sem heldur til Los Angeles eftir helgi þar sem hann mun vinna að listinni í nokkra mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×