Körfubolti

Finnur Freyr: Martin spilar ekki með KR

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Martin Hermannsson kemur ekki til að bjarga KR ef Pavel verður lengur frá.
Martin Hermannsson kemur ekki til að bjarga KR ef Pavel verður lengur frá. vísir/valli
Eins og greint var frá fyrr í dag spilar Elvar Már Friðriksson með Njarðvík gegn Stjörnunni í Dominos-deild karla í kvöld. Með sigri tryggir Njarðvík sér heimaleikjarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Elvar Már stundar nám og spilar með LIU-háskólanum í Brooklyn, en tímabili liðsins er lokið eftir tap í úrslitakeppni NEC-deildarinnar.

Hjá LIU Blackbirds spilar Elvar með KR-ingnum Martin Hermannssyni sem má, eins og Elvar Már, spila með KR hér heima á þessari leiktíð þar sem hann fékk ekki félagaskipti til annars liðs þegar hann fór í skóla.

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR.vísir/þórdís
„Martin er bara í Orlando í góðu yfirlæti hjá Óskari Kristjánssyni,“ segir Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, við Vísi aðspurður hvort KR-ingar ætli sömu leið.

„Við munum ekki gera þetta. Martin er bara í sínum verkefnum úti. Auðvitað væri gaman að hafa Martin en hann er bara að gera annað og að sleikja sárin eftir tímabilið með LIU.“

Finnur sagði í viðtali við Vísi eftir leik KR gegn Þór í gær að Pavel Ermolinskij sé tæpur fyrir úrslitakeppnina. Samt sem áður verður ekki leitað til Martins.

„Nei, því miður verður hann ekki með. Við erum með fínan mannskap og þeir sem hafa séð um þetta hjá okkur hingað til klára verkefnið,“ segir Finnur sem er þó í sambandi við Martin.

„Ég tala mjög reglulega við hann. Þetta er eitthhvað sem við höfum grínast með en það er ekki í stöðunni að hann spili með okkur núna. Það er ekki möguleiki,“ segir Finnur Freyr Stefánsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×