Innlent

Evrópuvaktin í hlé: Segja málatilbúnað ESB-sinna hruninn

Bjarki Ármannsson skrifar
Björn Bjarnason og Styrmir Gunnarsson, umsjónarmenn síðunnar.
Björn Bjarnason og Styrmir Gunnarsson, umsjónarmenn síðunnar. Vísir
Umsjónarmenn Evrópuvaktarinnar, vefsíðu um málefni tengd Evrópusambandinu (ESB), hafa gert hlé á útgáfu síðunnar. Segja þeir að þetta sé gert vegna þeirra þáttaskila sem blasi við hvað hugsanlega aðild Íslands að ESB varði.

„Hún er fjarlægari en fyrir 16. júlí 2009,“ segir í tilkynningu á vefnum, en þar er vísað til þess þegar Alþingi samþykkti að sækja um aðild að ESB. „Umræður liðinna ára hafa leitt í ljós að allur málatilbúnaður aðildarsinna er hruninn til grunna.“

Í tilkynningunni segir jafnframt að ljóst sé að Ísland „fljóti ekki sofandi“ inn í sambandið og komið sé að þáttaskilum í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur óskað eftir því að Ísland sé ekki lengur skráð sem umsóknarríki.

Evrópuvaktin hefur verið starfrækt frá árinu 2010. Umsjónarmenn hennar allan þann tíma hafa verið Björn Bjarnason, fyrrverandi Alþingismaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, og Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×