Körfubolti

Falur sá eini með fleiri fimm-þrista leiki en Brynjar í lokaúrslitum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þessi steinlá hjá Brynjari Þór Björnssyni.
Þessi steinlá hjá Brynjari Þór Björnssyni. Vísir/Valli
Brynjar Þór Björnsson átti stórleik með KR í gærkvöldi þegar liðið vann tuttugu stiga sigur í fyrsta leikinn á móti Tindastól í úrslitaeinvígi Dominos-deildar karla í körfubolta.

Brynjar skoraði 22 stig í leiknum þar af 19 þeirra í fyrri hálfleiknum. Öll stigin hans komu á fyrstu 22 mínútum leiksins eða á meðan KR náði upp 28 stiga forskoti.

Brynjar skoraði fimm þriggja stiga körfur í leiknum en hann hitti úr fimm af fyrstu sex þriggja stiga skotum sínum í leiknum.  

Þetta var í þriðja sinn sem Brynjar skorar fimm eða fleiri þriggja stiga körfur í leik í lokaúrslitum og hann komst þar með í mikinn úrvalshóp.

Þrír aðrir leikmenn hafa náð þessu eða þeir Falur Harðarson, Teitur Örlygsson og Guðjón Skúlason.

Falur Harðarson er þó í nokkrum sérflokki en hann á átta leiki í úrslitaeinvíginu þar sem hann skoraði fimm þrista eða fleiri. Þessir leikir hans komu í lokaúrslitunum 1991 (1), lokaúrslitunum 1996 (1), lokaúrslitunum 1997 (3) og lokaúrslitunum 1999 (3).

Brynjar náði því tvisvar að skora fimm þrista í úrslitaeinvíginu á móti Stjörnunni vorið 2011. Hann skoraði sex þrista í leik eitt og fimm þrista í leik tvö.

Flestir leikir í lokaúrslitum með fimm þriggja stiga körfur eða fleiri:

8 - Falur Harðarson, Keflavík (1991, 1996, 1997 og 1999)

3 - Teitur Örlygsson, Njarðvík (1991, 1995 og 2001)

3 - Guðjón Skúlason, Keflavík (1990, 1992 og 1997)

3 - Brynjar Þór Björnsson, KR (2011 og 2015)

2 - Magnús Þór Gunnarsson, Keflavík (2005)

2 - Brenton Birmingham, Njarðvík (2002 og 2006)

2 - Samuel Zeglinski, Grindavík (2013)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×