Körfubolti

Fimmtán ár á milli Íslandsmeistaratitla hjá Magna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magni Hafsteinsson í úrslitaseríunni á móti Tindastól.
Magni Hafsteinsson í úrslitaseríunni á móti Tindastól. Vísir/Andri Marinó
Magni Hafsteinsson varð Íslandsmeistari í gær með KR-liðinu þegar KR tryggði sér titilinn annað árið í röð með 88-81 sigri á Tindastól í Síkinu á Sauðárkróki í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvíginu.

Magni er 34 ára gamall og tók skóna fram að nýju á miðju tímabili en hann varð einnig Íslandsmeistari með KR í fyrra.

Magni varð fyrst Íslandsmeistari með KR vorið 2000 eða fyrir fimmtán árum síðan. Magni var hinsvegar ekki með KR þegar titilinn vannst 2007, 2009 og 2011.  

Síðan úrslitakeppnin var tekin upp vorið 1984 hafa aðeins tveir leikmenn unnið Íslandsmeistaratitilinn með lengra millibili.

Það liðu átján ár á milli fyrsta og tíunda Íslandsmeistaratitils Teits Örlygssonar og þá þurfti Páll Axel Vilbergsson að bíða í sextán ár eftir öðrum Íslandsmeistaratitli sínum sem kom í höfn 2012.

Magni var í hópi með fjórum öðrum fyrir þetta tímabil en er nú kominn einn upp í þriðja sæti listans. Til þess að jafna met Teits þarf hann hinsvegar að vinna Íslandsmeistaratitilinn vorið 2018 þá orðinn 37 ára gamall.  



Lengsti tími milli fyrsta og síðasta Íslandsmeistaratitils í úrslitakeppni:

18 ár

Teitur Örlygsson 1984-2002

16 ár

Páll Axel Vilbergsson 1996-2012

15 ár

Magni Hafsteinsson 2000-2015

14 ár

Falur Harðarson 1989-2003

Guðjón Skúlason 1989-2003

Kristinn Einarsson 1984-1998

Ólafur Már Ægisson 2000-2014

13 ár

Friðrik Ragnarsson 1988-2001

12 ár

Fannar Ólafsson 1999-2011

Hjörtur Harðarson 1992-2004


Tengdar fréttir

Viljum vinna miklu fleiri titla

KR varð Íslandsmeistari karla í körfubolta annað árið í röð og í 14. sinn í sögu félagsins í gærkvöldi þegar liðið vann Tindastól, 88-81, í fjórða leik liðanna í lokaúrslitunum. KR-ingar stefna á að vinna fleiri titla á næstu árum og stefna á bikarmeistaratitilinn




Fleiri fréttir

Sjá meira


×