Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Snæfell - Njarðvík 73-84 | Fjögur stig Snæfells í fjórða leikhluta

Símon Hjaltalín skrifar
Vísir/Stefán
Snæfell tók á móti Njarðvík í 2. umferð Domino's-deildar karla.

Njarðvík vann 73-84 eftir hörkuleik og mikla spennu. Logi Gunnarsson var stigahæstur Njarðvíkur með 23 stig og Marquise Simmons endaði með 21 stig og 14 fráköst.

Hjá Snæfelli var Sherrod Wright með 24 stig og Austin Bracey 12 stig.

Eftir Njarðvík hafði sótt vel á og verið yfir 15-28 eftir fyrsta fjórðung gáfu Snæfellingar í og jöfnuðu 41-41 í 2. hluta eftir að Austin Bracey, Sigurður Þorvaldsson og Sherrod Wright skelltu í þristasýningu.

Leikurin var gríðalega jafn og spennandi og leikurinn í járnum fram undir lok fjórða fjórðungs þegar gestirnir tóku völdin og kláruðu leikinn með 11 stigum.

Snæfell snúa því í næsta leik leitandi að sínum fyrstu stigum í deildinni en eru að þjappa sér saman og allt annað var að sjá til liðsins í kvöld en síðasta leik.

Njarðvíkingar voru að vonum glaðir með erfiðan útivallasigur og eru því taplausir eftir fyrstu tvær umferðirnar en liðin þurfa að berjast nokkuð í vetur fyrir þeim tveimur stigum sem í boði verða.

Byrjunarlið beggja liða skoruðu bróðurpartinn af stigunum en Snæfell fékk ágætis framlag frá sínum varamönnum sem gefur vonandi góð fyrirheit fyrir þá en Njarðvíkurmegin var það eingöngu hinn ungi og efnilegi Jón Arnór sem kom af bekknum og bætti við hjá þeim.

Friðrik Ingi: Höfum ekki efni á kæruleysi

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Njarðvíkur, var ánægður með hvernig hans menn brugðust við slæmum leikkafla í öðrum leikhluta í sigrinum á Snæfelli í kvöld. Hann segir að hans menn hefðu verið kærulausir þegar Snæfellingar komu sér inn í leikinn.

„Ég gef Snæfellingum það að liðið er með mjög góða sóknarmenn og góða skotmenn sem þurfa ekki mikið pláss. Þetta breyttist hratt og við þurftum að laga ákveðna hluti fyrir seinni hálfleikinn sem mér fannst ganga ágætlega að mestu leyti.“

Hann segir að það taki tíma að slípa saman nýtt lið. „Við erum svolítið á eftir þannig að við vorum meðvitaðir um að þetta væri leikur sem gæti farið á báða vegu.“

„Við erum ekki það góðir að við getum leyft okkur að vera kærulausir og verðum að nálgast leikinn af viringum sem mér fannst við gera að mestu leyti. Ég er mjög ánægður með að fara héðan með tvö stig, því ég veit að Snæfell á að eftir að vinna leiki í vetur - sérstaklega á heimavelli.“

„Það eru einhverjir búnir að dæma þá niður en það eru allt of góðir leikmenn í Snæfelli til þess. Þeir munu ekki leggjast flatir og tapa mörgum leikjum í röð.“

Ingi Þór: Þungt að elta

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, var allt annað en ánægður með frammistöðu sinna manna gegn Keflavík í kvöld.

„Við vorum langt frá því að vera verra liðið í leiknum. Við vorum allt of flatir til að byrja með og þeir litu mjög vel út með því að setja niður galopin skot,“ sagði þjálfarinn.

„Við náðum að þétta vörnina og berja okkur áfram. Ég er þó ekki sáttur við línuna sem dómararnir settu - þeir dæmdu fimmtán liðsvillur á Njarðvík í fyrri hálfleik og tvær liðsvillur í nítján mínútur og 30 sekúndur í þeim síðari. Ég átta mig bara ekki á breytingunni á milli hálfleikja.“

Snæfell tapaði fyrir Haukum í fyrstu umferðinni en Ingi Þór segir að liðið hafi sýnt framfarir í kvöld. „Með þessum leik hefðum við boðið Haukum almennilegan leik og hugsanlega unnið. En það verður ekki tekið af Njarðvík að það er gott lið.“

Hann segir að það sé erfitt að byrja tímabilið á tveimur tapleikjum. „Nú þurfum við að elta sem er þungt. Ég er stoltur af framförunum frá síðasta leik og við byggjum á því fyrir næsta leik sem er gegn Hetti á Egilsstöðum. Það er virkilega stórt verkefni fyrir okkur.“

„Það eiga öll lið eftir að taka stig hvert af öðru og ég er ánægður með hvernig liðið mitt mætti til leiks í kvöld. Áræðnin var staðar og við vorum í bullandi séns á að ná sigrinum. Það mátti stundum litlu muna.“

Snæfell-Njarðvík 73-84 (15-28, 30-18, 24-23, 4-15)

Snæfell: Sherrod Nigel Wright 24/5 fráköst/5 stoðsendingar, Austin Magnus Bracey 12, Sigurður Á. Þorvaldsson 11/9 fráköst, Stefán Karel Torfason 9/8 fráköst/5 stolnir, Viktor Marínó Alexandersson 7, Óli Ragnar Alexandersson 4/5 fráköst/6 stoðsendingar, Jóhann Kristófer Sævarsson 2, Birkir Freyr Björgvinsson 2, Óskar Hjartarson 2.

Njarðvík: Logi Gunnarsson 23/5 fráköst, Marquise Simmons 21/14 fráköst, Maciej Stanislav Baginski 16/5 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 9/5 fráköst, Hjalti Friðriksson 8/9 fráköst, Jón Arnór Sverrisson 7.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×