Körfubolti

Pavel: Það féllu engin tár í klefanum

Ingvi Þór Sæmundsson í Ásgarði skrifar
Pavel Ermolinskij keyrir á Tómas Þórð Hilmarsson í Ásgarði í kvöld.
Pavel Ermolinskij keyrir á Tómas Þórð Hilmarsson í Ásgarði í kvöld. vísir/vilhelm
Pavel Ermolinskij, leikmaður KR, sagði að hefði lítið vantað upp á til að Íslandsmeistararnir hefðu klárað leikinn gegn Stjörnunni í kvöld.

"Það var lítið sem vantaði upp á, mér fannst við vera brattari. Þeir settu niður erfið skot undir lokin á meðan við klikkuðum á okkar færum," sagði Pavel en Stjörnumenn höfðu á endanum betur, 80-76.

"Við áttum að vera búnir að klára þetta miklu fyrr, þetta hefði ekki átt að vera svona jafnt undir lokin," sagði Pavel sem átti flottan leik í kvöld; skoraði 15 stig, tók 13 fráköst, gaf sjö stoðsendingar, stal þremur boltum og varði þrjú skot.

Pavel kvaðst ekki vera ánægður með frammistöðu KR-inga í kvöld og segir liðið eiga ennþá nokkuð langt í land.

"Nei, við getum ekki verið ánægðir með frammistöðuna en við erum bara á sama stað og allir þótt þessi kjarni hafi verið lengi saman. Við þurfum smá tíma til að koma okkur aftur í gang eins og hin 11 liðin.

"Við þekkjumst vel svo það ætti að vera auðvelt. Um leið og þessar einföldu körfur og flæðið og skilningur milli manna í vörn og sókn eykst þá kemur þetta. Ég hef litlar áhyggjur af þessu," sagði Pavel og bætti því að þetta tap myndi ekki hafa of mikil áhrif á KR-liðið.

"Alls ekki, það voru engin tár sem féllu í klefanum eftir leikinn. Það er hræðilegt að tapa en tilfinningin í leiknum var ekki sú að við værum á einhverjum slæmum stað heldur bara ekki á þeim stað sem við viljum vera á. Maður fann það í leiknum," sagði Pavel að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×