Körfubolti

49 ára gamall leikmaður Snæfells: Ætli ég haldi ekki áfram meðan skrokkurinn leyfir það

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Baldur Þorleifsson kemur inn á í kvöld.
Baldur Þorleifsson kemur inn á í kvöld. vísir
Baldur Þorleifsson, leikmaður Snæfells, spilaði í rúmar sjö mínútur þegar Hólmarar lágu, 86-60, fyrir Haukum í kvöld.

Það er kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þá staðreynd að Baldur er fæddur 1966 og þar með 49 ára gamall.

"Ég held ég hafi spilað síðast fyrir fjórum árum, einhverja 6-8 leiki," sagði Baldur eftir leikinn í kvöld.

Aðspurður hvort þetta væri neyðarráðstöfun eða hann væri kominn til að vera í leikmannahópi Snæfells hafði hann þetta að segja: "Í byrjun átti ég bara að fylla upp í æfingahóp meðan við biðum eftir tveimur leikmönnum en ætli ég haldi ekki áfram meðan skrokkurinn leyfir það."

Baldur virkar í fínu formi og það var ekki að sjá að árin 49 þvældust mikið fyrir honum þegar hann henti sér á eftir boltanum í eitt skiptið í kvöld. Hann viðurkennir þó að leikæfingin sé ekki mikil.

"Ég hef alltaf haldið mér við þannig að þetta verður kannski auðveldara fyrir vikið. "Touchið" og svona, það vantar, en það kemur eftir því sem maður æfir meira," sagði Baldur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×