Fótbolti

Margrét Lára aftur upp fyrir Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir.
Margrét Lára Viðarsdóttir. Vísir/Vilhelm
Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði tvö mörk á móti Makedóníu í undankeppni EM í gær og er þar með samkvæmt tölfræði UEFA-manna búin að skora 81 mark í mótum á vegum sambandsins.

Lionel Messi skoraði sitt 80. UEFA-mark og komst upp fyrir Margréti Láru í ágúst þegar Argentínumaðurinn skoraði tvö mörk fyrir Barcelona í Súper-bikar UEFA. Messi skoraði ekki í fyrsta Meistaradeildarleik Barcelona á leiktíðinni og hefur ekki tekið þátt í tveimur síðustu vegna meiðsla.

Margrét Lára hefði getað jafnað Messi (og Henry) þegar hún skaut yfir úr vítaspyrnu á móti Hvíta-Rússlandi á dögunum en bætti fyrir það með því að skora tvö mörk í sigrinum á Makedóníumönnum í gær.

Margrét Lára hefur skorað þetta 81 mark fyrir íslenska landsliðið og fyrir Val í Evrópukeppninni.

Messi hefur bara skorað mörk sín fyrir Barcelona í Evrópukeppni því argentínska landsliðið tekur að sjálfsögðu ekki þátt í keppnum evrópska knattspyrnusambandsins.

Margrét Lára náði Frakkanum Thierry Henry í sjötta sæti listans með þessum tveimur mörkum.

Margrét Lára á samt langt í land með að ná Cristiano Ronaldo sem er á toppi listans með 117 mörk en næstur fyrir ofan hana er nú Ítalinn Filippo Inzaghi sem skoraði á sínum tíma 86 UEFA-mörk.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×