Körfubolti

Hrafn: Barátta er hæfileiki í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar.
Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar. Vísir/Vilhelm
Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, leið ekki vel með leik sinna manna í kvöld þrátt fyrir sigur á seigu liði FSu á heimavelli. Hann gagnrýndi sína menn eftir tapleikinn gegn Tindastóli í síðustu umferð en vildi sjá meiri framfarir á milli leikja.

„Ég sá ekki nóg. Maður má ekki vera drambsamur og fagna ekki sigrunum, því við þurftum á þessum svo sannarlega að halda. En ég hef skemmt mér betur sem þjálfari á körfuboltaleik en í kvöld,“ viðurkenndi Hrafn eftir fjögurra stiga sigur á FSu, 91-87.

„Við ætluðum að sýna meiri framfarir en við gerðum í kvöld. Það er allsherjar doði yfir liðinu. Við leitum á sömu staðina og yfirleitt á sama manninn, svo ég sé alveg hreinskilinn, þegar það er ekkert alltaf besti kosturinn í stöðunni.“

„Í vörninni vorum við allt of oft að horfa á skoppandi bolta og leyfa þeim að sækja þá á undan okkur. FSu átti ekkert síður skilið en við að vinna þennan leik. Þeir komu inn í þann leik nákvæmlega eins og við ætluðum að gera.“

„Það er gott að vinna leiki en þetta var ekki kvöld eins og ég sá fyrir mér,“ sagði Hrafn sem saknar þess að sjá ekki meiri baráttu en hann gerði í kvöld.

„Mér finnst öll lið keppast um að tala um hversu langt þau eiga í land. Sama hvað maður á langt í land þá þarf enginn að sleppa því að berjast.“

„Það virðist vera þannig að barátta er orðin hæfileiki í dag. Í gamla daga var barátta staðalbúnaður og maður þurfti að vinna í öðrum þáttum. Núna virðist það vera guðsgefinn hæfileiki að henda sér á bolta og berjast fyrir lífi sínu.“

„Þá þarf maður að finna leið til að þjálfa það upp.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×